148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[16:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni og formanni hv. utanríkismálanefndar fyrir prýðisgóða ræða þar sem hún fór yfir ýmislegt. Okkur verður að ósk okkar þegar við fáum væntanlega að ræða utanríkismálin á framhaldsfundi og það er vel. Ég held að það skipti máli að ræða þessi málefni djúpt. Hv. þingmaður vísaði í skýrsluna um EES-samninginn sem á að vera grunnur að stöðu okkar í þeim málum með það að markmiði að efla hagsmunagæslu okkar enn frekar. Ég fagna því sérstaklega hvernig hv. formaður utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, tekur á málum varðandi það sem snýr að þinginu. Það er mjög mikilvægt.

Allt saman tengist þetta. Við vitum það þegar það er skoðað að innleiðingarhallinn byrjaði þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu. Þær ógnir sem stafa af honum eru m.a. þær að það er verið að grafa undan tveggja stoða lausninni sem er uppbyggingin í samningnum. Því miður hafa vinir okkar í ESB ekki verið með þær áherslur sem upp var lagt með í EES-samningnum. Það skiptir máli að ræða þau mál eins og þau eru, það er verið að grafa undan samningnum, t.d. með fullyrðingum um að við tökum nokkurn veginn allar innleiðingar og gerðir ESB upp í okkar löggjöf í gegnum samninginn. Það er ekki rétt. Tölurnar tala sínu máli og menn geta ekki snúið neitt út úr þeim. Þetta eru 13,4%.

Hv. þingmaður vísaði í mannréttindi, lýðræði og viðskiptafrelsi sem er góð samstaða um. Menn þurfa líka að vita, af því að alltaf er verið að taka hér aftur upp það málefni að ganga í ESB, hvað það þýðir fyrir okkar viðskiptastefnu ef við förum þar inn. Það þýðir minna viðskiptafrelsi fyrir okkur. Fyrir okkur Íslendinga er lífsnauðsynlegt að búa við viðskiptafrelsi og það eru stór svæði sem er mjög mikilvægt fyrir okkur að ná enn betri samningum við. Eitt er fríverslunarsamningarnir, annað er loftferðasamningarnir, það eru tvísköttunarsamningar og fjárfestingarsamningar. Ég fer betur í það í seinna andsvari hvernig þau mál standa.