151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Umræður hér í þingsal eru alla vega, eins og gengur, enda af misjöfnum uppruna, allt eftir tilgangi og tilefni. Ég ætla ekki að halda hér ræðu þar sem ég held því fram að ég hafi séð ljósið í þeim umræðum sem fara hér fram. Oft á tíðum fær maður þá tilfinningu að ekki sé mikill árangur af umræðunni eða að hún skilji ekki mikið eftir. En í gær ræddum við um öflun og dreifingu bóluefnis og hversu hratt okkur tekst að byggja upp varnir þannig að heimurinn fari á ferð að nýju. Við ræddum líka um verðtryggða vexti sem byggja á 40 ára gömlum lögum og í þeirri umræðu var dregið fram að við búum við gjörbreyttar aðstæður í samfélaginu, bæði félagslega og hagrænt. Nú í morgun las ég yfir nýjar spár frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Íslandsbanka og þar speglast mjög margt sem kom fram í umræðum um þessi mál hér í gær. Við búum nefnilega við gjörbreytt hagkerfi og breyttar áherslur í hagstjórn sem hefur skilað sér í auknum styrk samfélagsins til að takast á við efnahagsleg áföll eins og afleiðingar Covid-19. Þrátt fyrir nærri þriðjungs samdrátt í útflutningi varð ekki halli á utanríkisviðskiptum og útlit er fyrir afgang á næstu árum ef okkur tekst vel til í bólusetningu.

Það gerist oft við aðstæður eins og Covid-kreppan hefur leitt af sér að þær kjarna hluti. Þær verða prófsteinn á allt hagkerfið, heimilin, fyrirtækin, hið opinbera og hagstjórnina og draga fram kosti þeirra breytinga sem hafa orðið. Um leið og við (Forseti hringir.) þurfum áfram að sýna árvekni og þrautseigju þá er innstæða fyrir hóflegri bjartsýni.