151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[15:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil kannski fyrst í þessari umræðu í dag rifja upp með hvaða hætti við skildum við málið þann 7. desember sl. en þá var fyrsti flutningsmaður málsins, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, fjarverandi og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir hljóp í skarðið. Það kom fram mikil gagnrýni á það hversu miklar takmarkanir virtust vera á því hvernig málið hefði verið unnið. Það var mikið af opnum spurningum og nefndarmenn lýstu því yfir að margt ætti eftir að skoða í málinu og kepptust hér hver um annan þveran við að lýsa því yfir að taka þyrfti málið til nefndar á milli 2. og 3. umr. Umræðunni, bara til upprifjunar, lauk á því að hæstv. forseti sem nú situr í forsetastóli, ég er ekki með þetta skrifað fyrir framan mig, sagði efnislega að málið yrði tekið til nefndar á þeim tímapunkti, þ.e. áður en 2. umr. yrði fram haldið. Það var vissulega gert á fundi nefndarinnar þann 8. desember sl. en það er ekkert framhaldsnefndarálit eða slíkt fyrir okkur almenna þingmenn. Ég hefði því eflaust átt að fara í fundarstjórn áður en umræðan hófst og spyrja hvort ekki væri æskilegt að framsögumaður málsins útlistaði í sem skýrustu máli hvað hefði komið fram hjá þeim gestum sem mættu fyrir nefndina þann 8. desember. Þess sjást engin merki í nefndaráliti sem lá fyrir hér áður en þeir gestir komu fyrir nefndina. Ég vildi halda þessu til haga og beina því til hæstv. forseta, þó að það sé of seint í mínu tilviki, að þeir sem eru aftar á mælendaskrá eru ábyggilega áhugasamir um að heyra þau sjónarmið sem komu fram fyrir nefndinni og eru kannski til fyllingar og skýringar miðað við þær yfirgripsmiklu eyður sem voru í málflutningnum við upphaf 2. umr. Allir, leyfi ég mér að segja, virtust þeirrar skoðunar að málið yrði að fara til nefndar á milli 2. og 3. umr. En það er auðvitað ekki endilega sanngjörn staða gagnvart okkur þingmönnum, sérstaklega okkur sem eigum ekki sæti í fastanefndinni sem fjallar um málið, í hv. atvinnuveganefnd, að þetta sé fyrirkomulag þessarar umræðu.

Mig langar örsnöggt að rifja upp, af því að nú er nokkuð um liðið, einn og hálfur mánuður rúmur, síðan málið var til umræðu við upphaf 2. umr., að þetta snýst um að setja inn sektarákvæði þannig að fyrirtæki sem eru með 50 starfsmenn eða fleiri, það er varðan sem menn þurfa að fara fram hjá til að falla undir þetta, þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, með leyfi forseta:

„Greiðast dagsektirnar þangað til einkahlutafélag tilkynnir hlutafélagaskrá að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag.“

Þetta er sem sagt breyting á nokkrum lögum. Þetta er breyting á lögum um samvinnufélög, breyting á lögum um einkahlutafélög, breyting á lögum um hlutafélög og breyting á lögum um sameignarfélög. Í öllum tilvikum er verið að leggja það til að sektarheimild verði sett inn gagnvart þeim fyrirtækjum sem ekki hafa náð tilteknu hlutfalli hvað kynjaskiptingu stjórnar varðar. Ég kem síðar að sjónarmiðum sem snúa að því hve mikil jafnréttisnálgun er í þessari hugmynd eða aðgerð eða frumvarpi, eftir því hvernig við nálgumst það. Ég vil þó fá að minna á atriði sem kom fram í nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar en undir það skrifa hv. þingmenn Miðflokksins, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn lagði fram tvær spurningar um frumvarpið sem bornar voru undir Stefán Má Stefánsson, prófessor og sérfræðing í félagarétti.“

Þá gríp ég niður í svar Stefáns Más Stefánssonar prófessors við spurningum nefndarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hafa ber í huga að félagafrelsi og eftir atvikum eignarréttur þeirra er varinn af ákvæðum stjórnarskrárinnar gagnvart ýmsum ráðstöfunum af hálfu ríkisvaldsins, þar með talið löggjafans, sbr. einnig 11. gr. MSE. Af þessum sökum er meginreglan sú að félög ráða sjálf málum sínum og teljast jafnframt eigendur eigna sinna. Þennan rétt er þó unnt að skerða ef slíkar skerðingar hafa stoð í málefnalegum sjónarmiðum, þar á meðal sjónarmiðum um meðalhóf. Það væri t.d. málefnalegt sjónarmið að leitast við með setningu laga að jafna hlutföll milli karla og kvenna í stjórnum sumra félaga. Gæta verður þó meðalhófs. Það þýðir að leita verður leiða sem skerða sem minnst rétt félaga til að ráða sjálf málum sínum og eigum en geta engu að síður verið til þess fallnar að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Sé um að ræða félög sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga eru mun ríkari heimildir fyrir hendi til þess að setja lög af fyrrgreindu tagi. Fyrirliggjandi frumvarp gæti því samrýmst slíkum félögum.“

Samantekið lýsir Stefán Már Stefánsson, prófessor og sérfræðingur í félagarétti, þeirri afstöðu sinni að þarna sé verið að ganga allt of langt í að innleiða þessar íþyngjandi reglur, sektarheimildir, dagsektir, aðfararhæfar dagsektir, gagnvart einkafyrirtækjum. Það sé hægt, að því er virðist, að ná utan um þau sjónarmið er snúa að opinberum fyrirtækjum en þarna sé of langt gengið. Í því samhengi verður að rifja upp rökstuðning í frumvarpinu þar sem m.a. er litið til Skandinavíu, m.a. leitað fordæma í Noregi og víðar. En þar er verið að tala um skráð félög á hlutabréfamarkaði. Það má auðvitað deila um hvort slíkt stæðist eignarréttarákvæði stjórnarskrár og önnur ákvæði sem Stefán Már Stefánsson vísar í í svari sínu til nefndarinnar, en það er allt annars eðlis en það sem verið er að gera hér, að teygja sig alla leið niður í einkafyrirtæki sem hafa 50 starfsmenn eða fleiri. Þetta er atriði sem við hefðum að mínu mati þurft að fá miklu dýpri og heildstæðari upplýsingar um hér inn í þingsalinn, ekki bara til nefndarinnar með snöggsoðinni gestakomu daginn eftir að umræðunni var frestað heldur þannig að einhver festa væri í.

Við sjáum það líka í greinargerð frumvarpsins að þessi hlutföll hafa sem betur fer verið að jafnast býsna hratt. Stjórnmálin eru hér að reyna að stíga inn í ferli sem virðist vera svolítið náttúrulegt og er markmið að náist fram jafnt og þétt. En mér finnst sú mikla forsjárhyggja og íhlutun sem þessu fylgir alls ekki við hæfi og sérstaklega ekki þegar við fáum varúðarorð jafn reynslumikils manns og Stefáns Más Stefánssonar í þessum efnum. Það er auðvitað kostulegt í sjálfu sér að á tímum þegar flest mál snúast með einum eða öðrum hætti um Covid-aðgerðir, og það að styðja við að fyrirtæki landsins komist í gegnum þær þrengingar sem nú eru, og við þekkjum allt of vel orðið, sé hér með stuðningi ríkisstjórnarflokkanna þingmannamál sem gengur út á mjög vafasamt, svo að vægt sé til orða tekið, viðbótarsektarákvæði og þvingunarákvæði. Svona mál má alveg taka til umræðu hvenær sem er og hæstv. forseti stýrir því. En mér þykir tímasetningin margra hluta vegna ekki góð og það skýrir sig sjálft hvers vegna svo er.

Þetta mál ber merki þess, eins og svo mörg mál er snúa að umhverfismálum þessa dagana, er sama marki brennt og mörg þeirra, þ.e. annaðhvort er verið að plástra svöðusár eða að setja fram mál til þess að haka í box sem eru kannski helst til að sýnast, til að geta sagt við bakland sitt: Við vorum nú að taka þennan slag og hinn slaginn — án þess að raunverulegar líkur séu á að málið færi okkur í átt að markmiðunum sem sett eru. Svona furðumál, eins og ég leyfi mér að kalla þetta, verða þess valdandi að þau mál sem raunverulega skipta máli upp á aukið jafnrétti verða fyrir annars konar gagnrýni en ef þau kæmu fram ein og sér en ekki í skugga, leyfi ég mér að segja, mála eins og þessara. Ég vil leyfa mér að segja að þetta mál er alveg sérstaklega vont.

Umræðan sem átti sér stað þann 7. desember hjá þeim þingmönnum sem þá komust að, áður en hæstv. forseti hagaði málum svo skynsamlega að fresta umræðu og senda málið til nefndar, benti til þess að ekki sé nokkur sannfæring fyrir málinu hjá nokkrum þeirra sem hefur sett sig almennilega inn í það. Þingmenn, sérstaklega þingmenn stjórnarflokkanna sem þá höfðu raðað sér á nefndarálitið með fyrirvara, nefndarmenn í hv. atvinnuveganefnd, voru mjög uppteknir við að útskýra að þetta mál væri hálfunnið. Ég fór í andsvar, ef ég man rétt, við hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson og það voru engar vöflur á honum um að þetta mál yrði að fara til efnislegrar og ígrundaðrar skoðunar í nefndinni aftur því það væri alveg óforsvaranlegt að afgreiða málið með þeim hætti sem það lá fyrir í þingsal þann 7. desember.

Ég vil bara aftur, eins og ég byrjaði ræðu mína á að gera, beina því til virðulegs forseta hvort ekki sé hægt að fá hér inn í umræðuna framsögumann málsins. Framsögumaður er auðvitað sá sami og fyrsti flutningsmaður þannig að það ættu að vera hæg heimatökin. Ég sá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur hér í þingsal áðan og ég vil bara hvetja hv. þingmann til að koma hér til umræðunnar. Það gefur öðrum þingmönnum þá tækifæri til að eiga orðastað við fyrsta flutningsmann málsins í andsvörum við hvern og einn, komi þingmaðurinn í andsvör, og hins vegar að fara í andsvör við hv. þingmann sem missti af upphafi 2. umr. Ég skoðaði 1. umr. þegar mælt var fyrir málinu í upphafi. Það var nú hálfþunnur þrettándi. Þar voru ekki nema tveir þingmenn sem héldu ræður, annars vegar hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og hins vegar hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Haraldsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir er auðvitað einn af flutningsmönnum málsins og væntanlega fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem talar fyrir þessum sjónarmiðum og það væri jafnframt virkilega áhugavert að fá hana hér til til umræðunnar. En 1. umr. var sem sagt ekki til að dýpka málið mikið.

Málið var að því er virðist mjög lítið unnið í nefndinni og er nú komið inn aftur. Ég verð að viðurkenna að ég reiknaði hreinlega með því, það hvarflaði ekki annað að mér miðað við það hvernig málið var rætt hér þann 7. desember, en að það kæmi uppprentað nefndarálit með þeim upplýsingum sem komu fram á þessum viðbótargestafundi sem fór fram 8. desember. Þar kom fyrir nefndina prófessor Stefán Már Stefánsson, sérfræðingur í félagarétti, sem skrifaði þessa ágætu umsögn sem virtist vera orsök þess að til að mynda allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma voru á nefndarálitinu með fyrirvara þó að það væri kannski dálítið erfitt að festa hendi á því hvers vegna fyrirvarinn var til komin. Það blasti við að hv. þingmenn áttuðu sig hreinlega ekki á því hversu lítt og illa unnið málið var fyrr en það var komið hér til umræðunnar. Þetta virðist hafa verið afgreitt úr nefndinni. Það eru sjö þingmenn sem skrifa undir álitið. Það eru allir nefndarmenn nema þingmenn Miðflokksins sem virðast sem betur fer hafa verið með einhverri rænu á nefndarfundum áður en málið var tekið úr nefndinni, og vil ég þakka þeim hv. þingmönnum Ólafi Ísleifssyni og Sigurði Páli Jónssyni fyrir það.

En áður en tími minn klárast í þessari fyrstu ræðu minni vil ég nefna að við verðum líka að taka þetta mál í víðara samhengi. Er þetta það sem brennur mest á þegar kemur að því að jafna stöðu kynjanna? Heldur einhver að konur í helstu kvennastéttum hafi áhyggjur af hlutfalli kynja í stjórnum tiltekinna fyrirtækja? Ég held að risastórar kvennastéttir, svo við tökum sem dæmi hjúkrunarfræðinga og kennara, þar sem konur eru í miklum meiri hluta, álíti það miklu meira jafnréttismál að þeir hópar hafi aukið val um mögulega vinnuveitendur, að þessir hópar eigi auðveldara, sé starfskrafta þeirra óskað annars staðar en á ríkisstofnun, með að semja við fjölbreytta vinnuveitendur, einkaaðila á hinum ýmsu sviðum. Það er miklu meira jafnréttismál og mun styðja við launaþróun þessara hópa en það hvort einhver tuskubúð úti í bæ, sem hefur 52 starfsmenn, sé með tiltekna kynjasamsetningu í stjórn sem hittist kannski einu sinni í mánuði. Þetta er einhver svona yfirstéttarjafnréttisnálgun. Ég er algerlega sannfærður um að þær konur horfa raunverulega til þess að við séum að vinna hér að því að jafna tækifæri, burt séð frá því hvers kyns fólk er, ekki að tryggja jafna niðurstöðu heldur jafna útkomu. Það er forsjárhyggja sem á ekki heima í því samfélagi sem við byggjum. Við eigum að tryggja að fólk hafi jöfn tækifæri, hvort sem er til menntunar eða vinnu. En við eigum að forðast það að stíga svo langt inn á öll svið samfélagsins að við séum farin að setja reglur sem eiga að þvinga fram tiltekna niðurstöðu. Fólk á auðvitað fyrst og fremst, ef nokkur kostur er, að hafa tækifæri til að gera og vinna við það sem því hugnast best. Við þekkjum auðvitað að áhugasvið kynjanna eru ólík og ég held að í þessum málum sé kostur að nálgast málin út frá raunheimum, því sem raunverulega blasir við, í stað þess að vera að þvinga í farveg einhverja niðurstöðu þar sem kynjaskipting er jöfn upp á tíu. Múrarar landsins verða til helminga konur og karlar. Leikskólakennarar landsins verða að jöfnu konur og karlar. Hjúkrunarfræðingar verða til jafns konur og karlar o.s.frv. Þetta verður auðvitað miklu betra samfélag ef við bara einbeitum okkur að því að tryggja jöfn tækifæri en ekki jafna niðurstöðu.