151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[15:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þetta er mál sem við vorum að ræða fyrir jól og ég er einn af flutningsmönnunum þess. Það er oft þegar umræðunni er slitið, og svona langur tími líður á milli, að þá langar mann aðeins að endurstilla sig. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls og ég hef gert það af tveimur ástæðum, það eru tvenn rök fyrir því að ég flyt þetta mál. Það eru annars vegar þau einföldu rök að mér þykir mjög eðlilegt, þegar við erum með lög, að hafa viðurlög ef fólk fylgir ekki lögunum. Það er bara almennt í lagasetningu og mér finnst það eðlilegt. Við höfum auðvitað mörg dæmi um það. Við þekkjum það t.d. úr umræðunni um ársreikningaskrá á sínum tíma. Við vorum með lög um að fyrirtæki skyldu skila inn ársreikningum og þær heimtur gengu illa. Um leið og ársreikningaskrá fékk tækifæri til að beita viðurlögum þá bötnuðu skil ársreikninga til muna. Svo má auðvitað lengi taka dæmi um lagabálka og mér finnst eðlilegt að ef lög eru ekki uppfyllt þá séu tækifæri til að beita einhvers konar viðurlögum.

Svo er það hinn vinkillinn sem er jafnréttisvinkillinn. Ég trúi því einfaldlega að það sé ofboðslega mikilvægt fyrir samfélagið allt að við nýtum krafta beggja kynja og allra kynja ef því er að skipta. Því miður er það þannig að þrátt fyrir að við stöndum fremst meðal jafningja þegar kemur að jafnréttismálum, höfum í mörg ár verið í fyrsta sæti þegar litið er til jafnréttismála, þá erum við samt ekki komin alla leið. Það hefur verið margsannað og sýnt fram á það í rannsóknum að fyrirtækjum vegnar almennt betur þegar þau hafa breidd í stjórnunarhópnum sínum.

Það er auðvitað hægt að færa sig til baka í umræðunni og spyrja: Af hverju erum við með kvaðir á einkafyrirtæki úti í bæ um hvernig þau eigi að skipa stjórnir sínar? Það er auðvitað umræða sem var tekin á sínum tíma þegar þessi lög voru sett. Ef einhverjir eru á þeim buxunum að það sé alger hugsunarvilla og algjört rugl þá hvet ég þá hina sömu bara til að leggja fram frumvarp um að afnema lögin sjálf. Það væri þó skýrara. En ég er á þeirri skoðun að því miður þurfum við að hafa einhverjar reglur hvað þetta varðar. Ég vildi óska að við þyrftum þess ekki. En því miður er það mitt mat að við þurfum á slíkum lögum að halda. Þá er líka eðlilegt að hægt sé að hafa viðurlög gegn þeim sem ekki virða lög og reglur.

Ég náði ekki að fylgjast alveg með þeim sem töluðu á undan mér þannig að ég held að ég hafi þessa ræðu mína ekki lengri í bili og noti þá frekar tækifærið til að koma aftur í umræðu ef þörf er á. En ég heyrði að málið færi aftur til hv. atvinnuveganefndar milli umræðna og þá er hægt að taka á þeim atriðum sem bent hefur verið á hér. Það hlýtur að vera hið besta mál. Það væri auðvitað æskilegt að fleiri umsagnir bærust um málið og einhverja vitneskju hafði ég um að það hefði gerst í millitíðinni þannig að ég treysti því að nefndin geti afgreitt málið aftur og við getum látið það verða að lögum á þessu vorþingi.