Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[20:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, aldursfriðun húsa og mannvirkja. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða aldursfriðun húsa og mannvirkja. Annars vegar um að í stað þess að öll hús og mannvirki sem eru 100 ára og eldri séu friðuð þá verði miðað við byggingar árið 1923 eða fyrr. Hins vegar að bætt verði við heimild Minjastofnunar Íslands til að skilyrða leyfi vegna framkvæmda á friðuðum húsum eða að leggja til friðlýsingu. Þá er lagt til að viðmiðunarártalið fyrir umsagnarskyldu Minjastofnunar samkvæmt 30. gr. laganna verði breytt og eigi við um hús sem byggð voru 1930 eða fyrr í stað ársins 1925.

Nefndin fékk til sín gesti og bárust umsagnir. Ef ég stikla aðeins á stóru í þeim efnum þá komu fram þau sjónarmið að miða ætti aldursfriðun húsa og mannvirkja við þau sem byggð voru árið 1918 eða fyrr, líkt og á við um aldursfriðun kirkna, og var í eldri lögum um húsafriðun. Þá var einnig sett fram tillaga um að miða mætti við árið 1915. Meiri hluti nefndarinnar áréttar að brýnt er að skoða aldursmörk friðunar húsa í heildarendurskoðun laga um menningarminjar. Þá telur meiri hlutinn ekki rétt að færa tímamarkmiðið aftar og aflétta þar með friðun húsa sem geta haft menningarsögulegt gildi fyrr en að lokinni ítarlegri skoðun og greiningu.

Fyrir nefndinni komu fram ýmis sjónarmið um það við hvaða tímamark ætti að miða umsagnarskyldu Minjastofnunar. Í frumvarpinu er lagt til að umsagnarskylda eigi við um hús sem byggð voru 1930 eða fyrr en umsagnaraðilar bentu t.d. á að miða ætti við hús sem byggð voru 1940 eða fyrr eða 1945 við lok síðari heimsstyrjaldarinnar, enda hefðu þá orðið miklar breytingar sem höfðu áhrif á byggðararf þjóðarinnar. Þá kom einnig fram ánægja með að miða við ártalið 1930, enda hafi þá lokið miklu og glæsilegu uppbyggingarskeiði sem oft er kennt við steinsteypuklassík. Meiri hluti nefndarinnar leggur ekki til breytingar á ákvæðinu en áréttar mikilvægi þess að þetta atriði verði skoðað í tengslum við boðaða heildarendurskoðun laganna.

Þá var nefndinni bent á að líta mætti til þess að breyta viðmiðum við friðun fornminja sem að óbreyttu fjölgaði með hverju árinu. Ákjósanlegt væri að samræma aldursfriðun húsa og mannvirkja annars vegar og fornleifa hins vegar. Telur meiri hluti nefndarinnar rétt að þetta verði einnig skoðað við endurskoðun laganna og rétt að koma því hér á framfæri.

Á fundi með fulltrúum sveitarfélaga og í umsögnum þeirra um málið kom fram að ein megináherslan í rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða á árunum 2023–2032 er að auka fyrirsjáanleika verkefna um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Mikilvægur liður í því er að samþætta ferla við gerð skipulags og veitingar byggingarleyfa með það að markmiði að stytta framkvæmdatímann og lækka byggingarkostnað.

Meiri hluti nefndarinnar tekur undir ábendingar fulltrúa sveitarfélaga um mikilvægi þess að farið verði sérstaklega yfir samskipti Minjastofnunar og sveitarfélaga í þeirri vinnu og koma á skilvirkara verklagi þar sem þörf er á og setja leiðbeiningar til að fækka hugsanlegum flöskuhálsum við undirbúning framkvæmda.

Ljóst er að ef 100 ára friðunarreglan stendur óhögguð fjölgar á ári hverju friðuðum húsum. Eins og fram kemur í greinargerð þá eykur fágæti varðveislugildi minja en hið gagnstæða dregur úr því. Það er því mikilvægt að fagleg rök séu til grundvallar vernd og friðun og telur nefndin brýnt að áhersla verði lögð á að tryggja friðun húsa og mannvirkja og fornminja með hátt varðveislugildi sem sannarlega þarf að vernda. Meiri hluti nefndarinnar telur því mikilvægt að frumvarpið verði að lögum og leggur jafnframt áherslu á að endurskoðun laganna verði hraðað og í þeirri vinnu verði litið til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í samráðsferli ráðuneytisins og við meðferð málsins hjá nefndinni.

Að framansögðu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álitið rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Sigmar Guðmundsson áheyrnarfulltrúi er samþykkur álitinu. Bergþór Ólason og Eyjólfur Ármannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.