Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[23:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. framsögumanns nefndarálits meiri hluta, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, að það ætti að skoða málið og fylgjast með í framhaldi gildistöku þeirra laga sem hér er rætt um. Maður hlýtur að spyrja sig: Af hverju ekki að fylgjast með Noregi? Það er heill her manna og kvenna, eftir atvikum, í því akkúrat núna að skoða hvernig tekist hefur til með svipaðar breytingar þar. Niðurstöðu þeirrar vinnu er að vænta á næsta ári. Af hverju ekki bara að fylgjast með því? Þar er miklu umfangsmeiri úttekt í gangi heldur en ég, með fullri virðingu fyrir okkur hér heima, tel að verði nokkurn tíma ráðist í á vegum innviðaráðuneytisins sem er líklegasti eftirlitsaðilinn með þessu frumvarpi sjálfs sín. Það blasir við að allra hluta vegna er skynsamlegt að fylgjast með hvernig þróun mála verður í Noregi og reyna að læra af því. Þess vegna, eins og ég kom inn á áðan, mun ég leggja fram tillögu þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu þess efnis að gildistöku verði frestað umtalsvert meira heldur en lagt er til í breytingartillögu nefndarinnar.

Það hefur verið rætt um það hvort einhver dæmi séu þess að fótunum sé kippt undan rekstrarforsendum heillar stéttar manna og kvenna með þeim hætti sem hér stefnir í að verði gert bótalaust. Umtalsverður kostnaður fylgir því fyrir leigubílstjóra landsins að koma sér upp atvinnutækinu, bílnum í þessu tilviki; tryggja sér öll leyfi, halda þeim við, tryggingar — sem eru auðvitað með allt öðrum hætti í kostnaði en trygging hins almenna fjölskyldubíls — og þar fram eftir götunum. Það er raunveruleg fjárfesting bæði í tíma og peningum á bak við hvern þessara einstaklinga og hvert þessara félaga sem stunda leigubílaþjónustu. Ég man hreinlega ekki til þess að jafn léttilega hafi verið skautað fram hjá því sjónarmiði í málum þar sem svo umfangsmiklar breytingar eru gerðar á starfsumhverfi stéttar.

Hér hefur verið komið inn á að leigubílar anni ekki hámarkseftirspurn nokkurn veginn tvisvar í viku, aðfaranótt laugardags og sunnudags. En hvaða þjónusta er það í samfélaginu sem annar þjónustuþörfinni við hámarkseftirspurn? Ég þekki t.d. dæmi þess núna í vikunni að foreldrar komu með ungt barn sitt á Læknavaktina og voru nr. 300 í röðinni. Það voru 299 á undan þeim í röðinni á Læknavaktinni. Er krafan sú að allir geti labbað inn og verið nr. 1 í röðinni, verið fremstir og það sé engin röð? Ekki í því samhengi. Ég veit að þetta sama fólk fór síðar sama dag, þar sem það komst ekki að og fékk ekki afgreiðslu á Læknavaktinni þar sem lokar kl. 10 að kvöldi, á bráðamóttökuna og beið þar í fimm tíma ef ég man rétt. Er það krafa að það verði engin bið á bráðavaktinni? Það dettur auðvitað engum til hugar að það sé raunhæft.

Þegar við byggjum brýr þá miðum við hönnunarforsendur þeirra við tiltekin líkindareikning er varðar árafjölda á stórum flóðum af því að það dettur engum til hugar að byggja brýr með þeim hönnunarforsendum að þær stæðust á hvaða árum sem er, slíkur yrði kostnaðurinn. Það er auðvitað sama hvert litið er í samfélaginu, við erum alltaf að taka mið af því að þjónustan sé eins góð og hægt er fyrir þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar. Með þennan markað þá er það auðvitað þannig að engan þarf að undra þótt á hæstu álagstímum geti komið upp sú staða að einhver bið sé á þjónustu. Þannig er það alls staðar í samfélaginu. Hver kannast ekki við að bíða dálítið lengi á þriðjudegi eftir pitsu frá Dominos? Við hönnum ekki kerfin okkar í kringum hámarksálag, það er hvergi gert. En það er samt krafan sem uppi er gagnvart leigubifreiðastjórum. Það dettur engum til hugar að stilla af þjónustu Strætó þannig að viðskiptavinir þess félags fái alltaf þjónustu akkúrat á þeirri mínútu sem þeim hentar best, þannig byggja menn ekki upp kerfið. Samt er sú krafa gagnvart leigubifreiðastjórum.

Það sem ég vil reyna að ramma inn með þessari nálgun minni er að úti um allt í samfélaginu er verið að veita þjónustu af ýmsu tagi. Það er hér um bil alltaf einhver bið eftir þjónustu á háannatíma á hverju sviði. Þá gildir einu hvort þar er um að ræða sjúkrahúsþjónustu, nú eða að komast til tannlæknis. Hönnun brúa snýst ekki um það að hanna brýr sem standast hvaða áraun sem er.

Sérleyfakerfin í rútubransanum eru þeirrar gerðar að rökin fyrir útboði sérstæðra leiðarhluta voru þau að viðhalda þjónustu á lágannatíma, þegar eftirspurnin var minnst. Ef við horfum til Keflavíkur þá stæði til boða rúta til höfuðborgarinnar fyrir þá sem komu og voru á ferð þegar nær enginn vildi kaupa þjónustuna. Þannig er þetta svo víða í kerfinu, eins og ég segi.

Það var komið inn á það hér áðan hvernig þetta snerti íslenskan veruleika, það músarhjarta sem mætir bréfum ESA. Mér þótti ágætt að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók hér dæmi af því og setti það sem liggur fyrir framan okkur núna í samhengi við það furðuregluverk sem orsakar það að atvinnubílstjórar landsins þurfi að fara á sérstakt endurmenntunarnámskeið reglulega til að hafa heimild til að aka yfir landamæri. Við erum auðvitað mjög reglulega að innleiða regluverk algjörlega úr samhengi við þann raunveruleika sem við búum í. Það verður að horfa til þess sjónarmiðs er varðar frjálsa samkeppni í þessum efnum en frjáls samkeppni þarf að vera byggð á grunni þar sem jafnræði er á milli aðila. Ég óttast, að þessu regluverki innleiddu, að við verðum búin að forma hér rekstrarumhverfi í leigubílaakstri þar sem rjómafleyting á sér stað; það verði prýðilegt framboð á þjónustu á háannatímum þegar mest gengur á, á aðfaranótt laugardags og sunnudags og kvöldin þar á undan, en þjónustan verði of lítil þegar kemur að lágönninni eða þessum tímum til að mynda þegar þjónustuþörfin er mest fyrir þá sem njóta þjónustu undir samningi Blindrafélagsins eða Reykjavíkurborgar við Hreyfil, ég man ekki hver mótaðilinn er. Því verður frjáls samkeppni að byggja á sanngjörnum grunni og ég er hræddur um að það sé skortur á því í því lagaumhverfi sem hér er verið að forma.

Virðulegur forseti. Þessi ræða var aðeins styttri en tíminn sem mér stóð til boða og ég vil biðja hæstv. forseta að setja mig einu sinni til á mælendaskrá.