154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vildi koma hér upp sérstaklega til að lýsa ánægju minni með þessa tillögu hér. Þingflokkur Viðreisnar styður hana heils hugar og allur þingflokkurinn gerir það. Mig langaði til að nefna, af því að þetta er undir liðnum almanna- og réttaröryggi, að ég held að það þurfi að fara að horfa alveg sérstaklega á öryggisþáttinn í fjárlagagerðinni. Við erum að horfa upp á uppsafnaðan vanda varðandi löggæsluna í landinu, Landhelgisgæsluna og við erum, ég þreytist ekki á að nefna það, að horfa upp á alveg hreint ömurlega stöðu varðandi fangelsismálin í landinu og að það geti gerst að vilji dómstóla landsins um afplánun í fangelsi verði að engu vegna þess að fangelsin í landinu séu svo fjársvelt. Ég minni á það aftur að þetta hefur gerst í kynferðisbrotamálum, þeim málum sem þykja hvað alvarlegust í samfélaginu. Menn hafa ekki verið boðaðir til afplánunar vegna þess að fangelsin í landinu eru til þess of fjársvelt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)