134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:27]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að fagna þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra svo langt sem það nær. Það er löngu tímabært að vinda sér í að laga og bæta kjör aldraðra og öryrkja. Það á að vera öllum ljóst að lífeyrir eins og hann er í dag tryggir ekki framfærslu, hann er ekki nægilega hár til að tryggja framfærslu lífeyrisþega, hvort heldur er öryrkja eða aldraðra. Skerðingarhlutföllin eru allt of há og tekjutenging við tekjur maka ætti að vera löngu afnumin eða aldrei komið á í upphafi. Því er það fagnaðarefni að þau fyrstu skref skuli vera tekin núna að afnema tengingu við tekjur lífeyrisþega, bæði þeirra sem eru öryrkjar og hinna sem hafa verið heilir heilsu og eru komnir á ellilífeyrisaldur, þ.e. að tekjutenging sé afnumin eftir 70 ára aldur. Því miður eru ekki gefin nein fyrirheit um tímasetningar um frekari réttarbætur fyrir öryrkja og aldraða, heldur vísað til efnahagsástandsins í landinu um hvenær megi koma á þeim bótum að draga úr skerðingarhlutfalli eða hækka bætur. Ég tel að það hefði verið mjög jákvætt að fá fram núna strax á sumarþingi ábendingar um hvað verði lagt fram á haustþinginu en vonandi nýtir ríkisstjórnin vel sumarið til að vinna áfram að tillögum að bótum fyrir aldraða og lífeyrisþega um bættan lífeyri.

Það sem er jákvætt er að þessar breytingar eiga að taka strax gildi. Það er ekki svo mjög há upphæð sem ætlað er að fari í breytingarnar á þessu ári. Kostnaðurinn er áætlaður 560–700 millj. kr. og það eru örugglega miklir óvissuþættir í þeirri áætlun, ekki vitað hversu margir geta og munu nýta sér þessi réttindi. Eitt er þó ljóst, það er erfitt fyrir þann sem er fimmtugur, hvað þá sextugur, hvað þá sjötugur, að fara út af vinnumarkaði og koma inn á hann aftur. Ef skerðingarnar á milli 67 ára og 70 ára eru óbreyttar verður það áfram svo að margir hætta að vinna vegna þessa þó að þeir hafi heilsu til. Það verður erfitt að koma inn á vinnumarkaðinn aftur þó að þeir gætu þá aflað sér tekna. Ég tel að með þetta bil, 67 til 70 ára, verði að fara í mjög nána, góða og markvissa samvinnu við Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara og ná samkomulagi um það hvernig eigi að draga úr skerðingum svo að þessar bætur sem núna eru verði virkar. Auðvitað eigum við að hvetja til þess að fólk sem heldur fullri heilsu og bæði vill og getur unnið eftir 67 ára aldurinn geri það. Það á að hvetja til þess. Vinnumarkaðurinn verður þá að vera opinn fyrir því að taka inn og halda í vinnu reynslumiklu fólki sem er á mörgum sviðum hæfara til að vera í þjónustu en það fólk sem hefur varla slitið barnsskónum. Sem dæmi er hægt að taka margar verslanir og ýmsa þjónustu sem aldraðir með góða og mikla reynslu sinna af alúð og veita betri þjónustu en þeir sem hafa aldrei komið út á vinnumarkaðinn. Auðvitað eigum við að hvetja til þess.

Öryrkjar verða ellilífeyrisþegar þegar þeir ná 67 ára aldri og lækka þá í tekjum. Þetta tel ég að sé eitt af mörgu sem eigi að skoða samhliða þessu. Þjónusta við öryrkja sem heldur áfram að vera öryrki, sem fótur vex ekki á eða verður skyndilega hraustur eins og aðrir lífeyrisþegar sem hafa haldið fullri heilsu, minnkar ekki, kostnaður hans minnkar ekki, lyfjakostnaður og annað, þannig að ég hvet til þess að í heilbrigðisnefnd verði einnig farið yfir þessar skerðingar og hvaða rök geti þá legið áfram því til grundvallar að lækka lífeyri öryrkja við 67 ára aldur.

Hvað varðar hækkun skattleysismarka vona ég að hæstv. ríkisstjórn setji það í forgang að hækka frítekjumarkið því að það mun ekki eingöngu vera lífeyrisþegum góð kjarabót, heldur öllu láglaunafólki og fólki með minni tekjur. Hækkun skattleysismarka mun gagnast stórum hópi fólks og láglaunafólki.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarpið við þessari 1. umr. en tel það til bóta svo langt sem það nær. Það er hluti af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og sá þáttur sem er útgjaldaminnstur í fyrstu atrennu og ég hvet þá hæstv. ríkisstjórn til að halda vasklega áfram og vinna að enn frekari bótum fyrir þá sem eru yngri en sjötugir. Ég tel að frumvarpið þurfi að fá góða umræðu í hv. heilbrigðisnefnd og að fyrir þá nefnd verði kallaðir þeir fulltrúar sem eiga þarna hagsmuna að gæta.