134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:58]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki alls kostar rétt hjá hv. þingmanni að það hafi engan veginn verið horft til þeirra sem eru 67 ára eða eldri. Það má m.a. geta þess að skerðingarhlutfall verður lækkað úr 40% í 35% á kjörtímabilinu og það mun nýtast öllum öldruðum.

Það sem hins vegar var hugmyndafræðin bak við það að miða við 70 ára aldurinn en ekki 67 ár, er að mjög stórir hópar aldraðra fara á lífeyri um sjötugt. Það er t.d. miðað við 70 ára aldur hjá opinberum starfsmönnum, að þeir hafi heimild til að starfa til sjötugs og mjög stórir hópar fara á lífeyri þá.

Það kom fram í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra að við þurfum að sætta okkur við það að þeir sem eru 70 ára og eldri og eru í fullu starfi fái auk launa sinna að starfa við hliðina á öðrum á sambærilegum launum en fá til viðbótar lífeyri almannatrygginga. Það var miðað við að þeir sem eru 70 ára og eldri hefðu skilað sínu til samfélagsins og eftir það gætu þeir verið á vinnumarkaði án þess að það leiddi til skerðinga á almannatryggingunum. Það var með ráðum gert að horfa á þá sem væru orðnir 70 ára en ekki þá sem væru á aldrinum 67–70 ára.

Í því sambandi má líka benda á að það voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar í desember síðastliðnum sem miða að því að hvetja eldra fólk til að halda áfram að vinna, m.a. með því að auka rétt þeirra í almannatryggingakerfinu þannig að það getur aflað sér aukinna réttinda um hálft prósent fyrir hvern mánuð sem það frestar töku lífeyris.

Það má eiginlega segja að ef við hefðum miðað við 67 ára aldur þá væri verið að vinna gegn þeim hugmyndum sem við lögðum fram í desember síðastliðnum, þ.e. að fólk geti aukið rétt sinn í almannatryggingakerfinu. Þetta voru svona í grófum dráttum og á stuttum tíma þau sjónarmið sem við lögðum til grundvallar og (Forseti hringir.) við teljum að þetta sé rétt viðmið.