135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í sjálfu sér er ekkert að segja um svar hæstv. ráðherra hvað það varðar að setja þurfti bráðabirgðalög til þess að hægt væri að taka húsin í notkun. Hæstv. ráðherra tekur undir þá gagnrýni að undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði málið átt að koma inn á vorþingið og afgreiðast þar því að nægur tími hefði verið til þess.

Annað mál er það er varðar not á húsunum og hugsanlega sölu þeirra ef ekki er búið að taka upp raflagnir og breyta þeim samkvæmt íslenskum byggingarlögum og reglugerðum. Nú veit ég ekki hvort svo er en ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum það alveg klárt í hvaða ástandi verið er að leigja hús til langs tíma eða jafnvel selja. Og þó svo að þetta heyri ekki beint undir hæstv. viðskiptaráðherra er þetta engu að síður mál sem snertir ráðstöfun þessara húsa, að sú ráðstöfun fari að lögum og reglum.