135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:52]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fullt tilefni er til þess að taka undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Auðvitað hefðu þeir sem standa að atvinnustarfseminni þarna suður frá átt að gera vart við þörfina fyrir lög af þessu tagi löngu fyrr. Það er alveg hárrétt hjá honum að það hefði verið miklu þægilegra og eðlilegra að geta komið þessum lögum fram á sumarþingi. Ég er viss um að hinn ágæti gamli herstöðvaandstæðingur, sem ber sér á brjóst í gleði sinni yfir því að herstöðin er loksins lokuð og henni breytt í miklu geðþekkari vistarverur, tekur þátt í því með okkur hinum að koma þeim í gegn.

Það má líka segja að það sé ámælisvert af þeim sem áður fóru með utanríkisráðuneytið, það er þeim ágæta þingmanni sem hv. þingmaður átti orðastað við í frammíköllum áðan, að hafa ekki haft vara á sér og komið fram með þetta mál löngu fyrr. Það hefði mátt ætla að þeir sem véluðu um þetta mál heilan vetur hefðu átt að sjá þessa þörf fyrir en eins og við vitum var allt öðruvísi farið með þetta. Hv. þingmaður man að húsin voru látin vera þarna í reiðileysi og frostspringa og miklar skemmdir urðu og sannarlega er það líka ámælisvert. Það má svo velta því fyrir sér hvort hv. þingmaður geti séð í gegnum fingur sér við ríkisstjórn sem er ný og er nýlega staðin upp með þingheimi öllum eftir sumarþing þegar þetta kemur skyndilega í ljós. Hann getur deilt á það, og hefur fullt tilefni til þess.

Mér finnst þó að hv. þingmaður ætti að gleðjast yfir því hvers konar rífandi gangur er í atvinnulífinu í kringum hina gömlu herstöð. Þegar hann og ég deildum vistarverum í Alþýðubandalaginu forðum tíð höfðum við alltaf uppi drauma um að þegar herinn færi væri hægt að byggja þarna upp þróttmikið atvinnulíf og það er að gerast. Þarna er dugmikið og framsýnt fólk sem hefur komið fram með hugmyndir og er að hrinda þeim í framkvæmd. Eigum við ekki að gleðjast yfir því, hv. þingmaður, en ekki reka hnýflana á okkar kollóttu höfðum (Forseti hringir.) í allt það jákvæða sem virðist vera að gerast þarna?