135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ágæt ræða hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Hann missti greinilega af þeim kafla í ræðu minni þar sem ég greindi frá því að líklega eru ein fjögur ár eða meir síðan ég lagði til á Alþingi að við losuðum okkur sem fyrst við herinn og byggðum þar upp alþjóðlegan háskóla sem hefði það verkefni að sinna friðarmálum á alþjóðlega vísu — og kannski veitti ekki af því hér á höfuðborgarsvæðinu líka — þannig að það er ánægjulegt að hlutirnir skuli vera að þróast á þennan veg. Ég er ekki endilega að blessa öll þau ímynduðu rekstrarform sem þarna eru sett upp. Þarna virðast dúkka upp hinir ýmsu aðilar og maður veltir því stundum fyrir sér hvort það sé tilgangur þeirra að komast yfir eignir ríkisins á sem billegastan hátt. En það er nú einu sinni þannig að hrægammar eru oft á ferðinni, hvort sem það á við í þessu tilviki eða ekki, ég veit það ekki.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er óforsvaranlegt að hafa ekki verið búinn að kanna þetta áður og vita þetta til að geta lagt þetta fyrir þingið með eðlilegum hætti. Ég man ekki betur en við hér á þingi höfum einmitt krafist úttektar á ástandi mannvirkjanna sem herinn var að yfirgefa, hvernig hann var að skilja við og hvaða ábyrgðir hann bar á þeim viðskilnaði. Þetta var náttúrlega flausturslegur og kæruleysislegur viðskilnaður enda börðust ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, fram í rauðan dauðann fyrir því að halda hernum í landi og vildu aldrei viðurkenna að hann væri farinn þó að hann væri farinn. Þar stóð hnífurinn í kúnni.