138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að ræða þetta mál. Ég minni þó á að þessar hugmyndir eru ekki nýjar af nálinni. Væntanlega hefur hv. þingmaður fylgst með því að mikil umræða hefur verið um það á undanförnum árum með hvaða hætti væri með einhvers konar auðlindagjaldi hægt að tryggja þjóðinni beint og milliliðalaust arð eða rentu af sameiginlegum auðlindum. Það eru gamalkunnar hugmyndir. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi hefur hv. þingmaður væntanlega líka fylgst með því að menn hafa rætt um að breyta skattkerfi okkar í átt til þess sem nú er víða verið að gera og tengist umhverfismálum, að hér yrðu þróaðir og innleiddir einhvers konar grænir skattar. Og sérstaklega horfa menn þar á losun gróðurhúsalofttegunda, kolefnisskatta eða skatta sem eru á breiðum og almennum grunni og leggjast þá jafnt á alla sem eru valdir að slíkri losun.

Í þriðja lagi hefur lengi verið rætt um að koma hér upp einhvers konar tekjustofni í þágu umhverfis- og ferðamála sem gæti til frambúðar orðið tekjustofn til uppbyggingar í þjóðgörðum og á fjölsóttum ferðamannastöðum og/eða til markaðssetningar í ferðaþjónustu. Við núverandi aðstæður er óhjákvæmilegt að skoða þann möguleika að ríkið og þessir aðilar deili þessum tekjum með sér á einhverju árabili þangað til betur árar og þetta getur orðið óskiptur framtíðartekjustofn fyrir þessa aðila.

Þetta eru þær meginhugmyndir sem þarna eru á ferð og það er alveg ljóst að í tilviki bæði orku- eða auðlindagjaldanna og losunargjaldanna er forsenda hugmyndafræðinnar sú að þetta sé almenn gjaldtaka sem allir greiði. Þá er hún að sjálfsögðu í fullu samræmi við samningana við stóriðjufyrirtækin, „samansúrraðir“ eins og þeir þó að mörgu leyti eru, en þar eru menn ekki varðir fyrir öðru en því að þá má ekki leggja á sértæka skatta.

Varðandi landsbyggðina er nokkuð ljóst (Forseti hringir.) að menn þurfa að líta til þess að auka endurgreiðslur t.d. til húshitunar á köldum svæðum eða til garðyrkjunnar o.s.frv.