138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég greindi reyndar enga spurningu í þessari messu hv. þingmanns. (BJJ: Þetta var andsvar.) Já, þetta var andsvar. Í sjálfu sér var þetta bara smá skammarpistill sem ég þarf ekkert að bregðast sérstaklega við. Ég verð þó bara að segja við hv. þingmann að ég held að hann gæti velt því fyrir sér hvernig fjárlagafrumvörp voru yfirleitt unnin hér stundum á umliðnum árum og jafnvel velt fyrir sér spurningunni: Hversu mikið vissu stjórnarþingmenn, t.d. Framsóknarflokksins, (Gripið fram í.) á þeim tímum sem þeir voru í samstarfi í ríkisstjórn, hvað þá stjórnarandstæðingar? (Gripið fram í.)

Forsendur þessa frumvarps voru lagðar hér á borðið í júní, (Gripið fram í.) kynntar fyrir Alþingi og ræddar hér og gengu síðan til nefndar. Frumvarpið byggir í öllum meginatriðum á þeim forsendum sem þá voru lagðar upp að undangengnu miklu samráði, miklu samstarfi og miklum umræðum, m.a. í aðdraganda þess að stöðugleikasáttmálinn var gerður. Að því komu vissulega fyrst og fremst margir þingmenn frá stjórnarliðinu en einnig stjórnarandstæðingar sem voru með inni í Karphúsi. Ég fullyrði því við hv. þingmann að forsendur fjárlagafrumvarps hafa aldrei legið jafnopnar fyrir og í þessu tilviki nú, enda eru aðstæðurnar auðvitað allt aðrar, algjörlega afbrigðilegar. (Gripið fram í.) Það er ekkert skrýtið við það að menn þurfi að móta vinnubrögðin í samræmi við aðstæður þegar þær eru eins og þær eru hér núna.

Vissulega var þetta síðan unnið undir miklu álagi og tímanauð, það er alveg hárrétt, það er ekkert verið að reyna að þykjast eða fela í þeim efnum. Við munum, hv. þingmenn, hvernig sumarið leið. Það var hér þing til 28. ágúst og menn geta aðeins velt því fyrir sér hvers konar vinnuálag hefur verið í ráðuneytum og í stjórnsýslunni þar sem öll þessi risavöxnu (Forseti hringir.) viðbótarverkefni hafa bæst við hin hefðbundnu störf sem þar þarf að vinna, þar á meðal við fjárlagagerð. (Gripið fram í: Og að svara ESB-spurningalistum.)