139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:05]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er uggur í fólki. Víða er verið að halda borgarafundi og menn hafa áhyggjur af því hvernig sé farið með heilbrigðisþjónustuna. Ég hef þó aldrei heyrt þá útgáfu að leggja eigi niður heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum, eins og hér var orðað. Sem betur fer stendur ekki til að leggja niður þjónustu á stöðum eins og þar né annars staðar í landinu.

Aftur á móti er verið að forgangsraða og reyna að stokka upp á nýtt. Talað er um að hér ráði einhver pólitísk stefnumótun. Ég veit ekki við hvað er átt með því. Hún er pólitísk að því leyti að það er heilbrigðispólitísk stefnumótun fólgin í því að verja heilsugæsluna, reyna að verja grunnþjónustuna og reyna að koma hlutum þannig fyrir að fólk fái góða og örugga heilbrigðisþjónustu en aftur á móti er skurðstofuþjónusta færð á betur búin sjúkrahús.

Ég hef auðvitað ekki tíma í stuttu andsvari til að fara ítarlega yfir málin. Ég fékk nokkrar spurningar um kostnaðargreiningu og hvort aðrar leiðir hefðu komið til greina. Nú hef ég náttúrlega ekki verið nema stuttan tíma í ráðuneyti og get ekki svarað fyrir það sem á undan er gengið en þessi tillaga var unnin og skýrð út fyrir forstöðumönnum út frá ákveðnum reiknireglum. Reiknaður var ákveðinn legutími og ákveðið hlutfall þjónustu í tengslum við lyfjadeildir og hjúkrunarsvið. Þar á bak við lá ákveðið einingaverð og síðan var þetta sett í samhengi við íbúafjölda á hinum ýmsu svæðum. Ákveðið var að verja stóru spítalana, taka Ísafjörð með utan við og það er rétt að Akranes var þar inni, þ.e. nýsameinuð heilsustofnunin á Vesturlandi. Síðan var það Neskaupstaður og að hluta til átti að reyna að verja Vestmannaeyjar líka.

Ég hef komið því að að allir þessir aðilar hafa verið beðnir um að fara yfir það hvernig þetta getur litið út á hverjum stað. Ég hef gefið fyrirheit um að farið verði yfir þetta aftur og skoðað að nýju (Forseti hringir.) þegar þær hugmyndir koma fram. Við töluðum bara um 2–3 vikur miðað við að þingið væri hér á milli 1. og 2. umr. fram í nóvember. Þá mundum við koma með þær tillögur inn í fjárlaganefnd á milli umræðna.