140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Jú, það er ætlunin að á komandi árum verði aðstaðan á Litla-Hrauni efld og byggt á þeirri stefnu að Litla-Hraun verði áfram kjölfestan í íslensku fangelsiskerfi.

Dagsetningar, segir hv. þingmaður. Ætli það fari ekki svolítið eftir því hvað Alþingi ákveður að gera? Ef menn ætla að deila um þetta áfram langt inn í öldina mun dragast að nýtt fangelsi verði reist og að lokað verði á Skólavörðustíg og í Kópavogi. (Gripið fram í.) Ákvörðun hefur verið tekin í ríkisstjórn, málið er núna hjá framkvæmdanefnd um opinberar framkvæmdir. Það er lögboðið ferli. Síðan fer málið í útboð hjá arkitektum, þetta er allt komið á beinu brautina.

Hver kemur til með borga? spyr hv. þm. Ólöf Nordal. Við gerum það, íslenskir skattgreiðendur. Það gerum við hvert sem formið verður, hvort sem það heitir einkaframkvæmd eða opinber. Það erum við sem komum til með að borga hverja einustu krónu og munum gera það á þann hátt að það sé sem hagkvæmast fyrir skattborgarana. Það er það sem skiptir öllu máli.

Hér hefur verið talað um 2007-hugsunarhátt annars vegar og kreppuhugsunarhátt hins vegar. Kreppuhugsunarhátt, já, að því leyti að við erum í kreppu og þurfum að fara vel með fjármagnið. Það ætlum við að gera. Og ég get fullvissað þingheim um að þær hugmyndir og ákvarðanir sem teknar hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar byggja hvorki á kjördæmapoti né sleggjudómum. Þær byggja á vandaðri vinnu sérfræðinga sem hafa legið yfir þessum málum um nokkurt árabil og komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé hagkvæmasti kosturinn fyrir fangelsiskerfið í landinu og íslenska skattgreiðendur. (Gripið fram í.)