140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[14:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Eins og hv. þingmaður rekur nákvæmlega fjalla lögin ekki um það, að öðru leyti eru lögskiptin á milli aðila í þessu tilviki. Ef bankar vilja sækja það sem þeir telja vangreitt af hálfu viðskiptavina sinna verða þeir að gera það. Ég vona að menn láti á það reyna fyrir dómi. Þar koma þá önnur sjónarmið til athugunar, t.d. fullnaðargildi kvittana sem fólk kann að hafa í höndunum. Þar kemur líka til annað sjónarmið sem eru lögmætar væntingar fólks. Það er líka spurningin um þekkingarmun fólks annars vegar og lánastofnana hins vegar. Það er allt annað mál. Hæstiréttur verður að fá að segja sína skoðun á því. Hann hefur sagt að þegar fólk hefur ofgreitt eigi það rétt á að fá það til baka. Hann hefur ekki sagt að hafi fólk vangreitt eigi lánastofnun kröfu á fólk, ekki mér vitandi. Það er mál sem eðlilegt er að dómstólar tjái sig um.