140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans og skil ágætlega þá stöðu sem ráðherra er í þegar hann ver þau lög sem hann hefur haft forgöngu um að setja.

Mig langar hins vegar af þessu tilefni, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, að inna hæstv. ráðherra eftir afstöðu hans til þeirra mála sem eru ofarlega á baugi um þessar mundir sem er spurningin um verðtrygginguna. Tekur hæstv. ráðherra undir þau sjónarmið sem eru úti í þjóðfélaginu um afnám hennar og þær kröfur sem uppi eru um leiðréttingar á þeim forsendubresti sem lántakendur telja sig hafa orðið fyrir við hrunið, og ekki síður kröfurnar um að gerðar verði breytingar á lögum um verðtrygginguna, að taka hana úr sambandi við lánveitingar til íbúðarkaupa?

Eins og málin standa líta mótmælendur þannig á að fjármagnseigandinn sé með allt sitt á þurru varðandi veð í viðkomandi húseign meðan íbúðarkaupandinn og lántakandinn stendur undir framtíðarskuldbindingu sinni með tvennum hætti, annars vegar með veði lánveitandans í húsnæði og hins vegar framtíðarmöguleikum viðkomandi til að afla tekna með vinnuframlagi. Mig langar að heyra örlítið frá hæstv. ráðherra um afstöðu hans til þess hvort ekki sé ástæða til að bregðast við þeim réttmætu kröfum sem uppi eru um endurskoðun á ákvæðum laga varðandi verðtryggingu íbúðarhúsnæðislána.