140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[18:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að munnhöggvast við hæstv. ráðherra út af orðum mínum áðan en ég vil halda til haga að ég sagði að ef við þyrftum að greiða atkvæði um þessa tillögu núna, hefðum einhver þau færi til þess að fara yfir hana, mundi ég segja já. Það þýðir að ég vil fara yfir tillöguna í utanríkismálanefnd.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að fyrst tillaga sem þessi er komin hér á dagskrá þarf enginn að segja mér annað en að hún verði samþykkt á endanum í þinginu hvernig sem hún mun líta út.

Það er ekki hægt að ræða þessi mál án þess að hafa Hamas í huga og hvernig þau samtök starfa. Það kann vel að vera að ég og fleiri séum að gera of mikið úr því. Það mun þá væntanlega koma í ljós þegar við förum betur yfir málið. Ég dreg ekki dul á það, herra forseti, að ég sé ekki mikinn mun á því sem Ísrael gerir og Hamas. Í stærðarsamhengi er kannski einhver munur þar á og á tækni og öðru slíku en báðir aðilar drepa saklaust fólk og kenna hvor öðrum um.

Úr því að búið er að rannsaka að Íslendingar þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu þá efast ég ekki um að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra. Ég vil þó minna á að stórþjóð ein vill setja viðskiptaþvinganir á Ísland af því að við veiðum hvali. Er það ekki rétt hjá mér? (Utanrrh.: Jú, jú.) (Gripið fram í.) Það er náttúrlega alveg dæmalaust af þeirri þjóð að tala með slíkum hætti þegar hún veiðir þvílíkt magn af hvölum. En ef hvalir skipta máli er alla vega mjög gott að vita að þeir skipti hana meira máli en það (Forseti hringir.) sem við erum að ræða hér.