141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

barnaverndarlög.

65. mál
[16:00]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, þetta snýst einmitt um að greina betur hver þörfin er til viðbótar við þá þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir núna og tryggja að það framboð sé til staðar.

Nú er þetta þannig sett upp í lögunum að reiknað er með því að sveitarfélögin greiði fyrir þessa þjónustu, þ.e. þau kaupa aðgang að heimilunum. Maður veit svo sem aldrei fyrir fram hver eftirspurnin verður nákvæmlega þegar þetta er gert svona, það er öðruvísi þegar menn hafa aðgang án þess að þurfa að greiða fyrir. Þetta er að vísu þekkt frá eldri tíma, ég kannast við það sem sveitarstjórnarmaður, að börn voru áður fyrr vistuð á heimilum á kostnað sveitarfélaganna. Oft var þetta stór baggi og mönnum fannst þetta dýrt og það var mismunandi hvernig sveitarfélögin gerðu þetta.

Hér voru það Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga sem tóku af skarið og töldu að það væri ekki ástæða til að breyta þessari þjónustu að svo stöddu vegna þess að það þyrfti að greina þetta betur og tryggja fleiri rými til að þjónustan yrði viðunandi.

Hv. þingmaður nefndi annað mál, Háholt í Skagafirði sem er eitt af þeim vistheimilum sem rekin eru á vegum Barnaverndarstofu. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að sá samningur er aðeins til miðs næsta árs, þ.e. til loka júní. Það er þó þannig í fjárlögum 2012 að fjárveiting er fyrir þessum sex mánuðum og til viðbótar er fjármagn sem annars hefði farið í að reka heimilið seinni hlutann en það er ekki merkt stofnuninni af því að samningurinn liggur ekki fyrir. Ég vona að ég fari rétt með þetta, ég held að það sé þannig. Peningarnir eru þarna en ekki merktir stofnuninni af því að samningurinn er til þessa takmarkaða tíma.

Það er líka rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að það hefur verið töluverð umræða um Háholt í tengslum við öryggismál og mönnun á fagfólki, en það er engin launung á því að ég tel að starfsemin eigi að vera þar áfram. Húsnæðið er byggt af, ef ég veit rétt, Sveitarfélaginu Skagafirði og þetta er auðvitað stór vinnustaður í héraðinu. Þó að það eigi í sjálfu sér ekki að vera aðalatriði skiptir það auðvitað máli og líka að spurt sé af hverju þjónustan geti ekki verið þar, ef það á að veita hana. Það er sú afstaða sem ég hef haft í þessu máli, en það hafa auðvitað verið að koma fram ný úrræði. Það eru fleiri unglingar sem fá nú þjónustu þar sem þeir búa, þeir búa áfram heima í stað þess að fara á vistheimili eða stofnanir. Þessu er fylgt eftir af þjónustuaðilum í viðkomandi umhverfi. En með því að þessir einstaklingar fara ekki lengur inn á stofnun verða þyngri einstaklingar, ef svo má segja, á stofnunum sem krefjast meiri þjónustu og meiri fagþekkingar. Það er kannski sú umræða sem á sér stað í sambandi við Háholt.

Sjálfur hef ég talið að starfsemin eigi að vera þar áfram eins og hv. þingmaður. Ég held að það sé alveg rétt að þetta fari fyrir hv. velferðarnefnd og þessi mál verða líka rædd í tengslum við fjárlögin vegna þess að það hefur einmitt komið fram sú gagnrýni, m.a. frá Ríkisendurskoðun, að þegar menn gera svona breytingar, leggja niður heimili eða eitthvað slíkt, taka nýja stefnu í málunum, eigi að gera það eftir mótaðri stefnu, hún þurfi að liggja fyrir og aðdragandinn sé á forsendum hennar. Þetta er staðan á málinu.

Ég vona að þetta fari til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd og tel óhjákvæmilegt að verða við þessum óskum — þess vegna er frumvarpið flutt — frá sveitarfélögunum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég þakka fyrir umræðuna.