142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við stöndum nú í þeim sporum að fyrir okkur liggur nýtt kjörtímabil, fjögur ár full af tækifærum og möguleikum til að gera góða hluti og rétta hluti fyrir íslenska þjóð. Ég vona svo sannarlega að allir sem sitja á Alþingi Íslendinga séu fullir af eldmóð og ætli sér í þetta verkefni af heilum hug.

Mig langar, herra forseti, að hvetja hv. þingmenn, sama í hvaða flokki þeir eru, til að reyna af fremsta megni að beita sér fyrir því að þannig skulum við vinna í þinginu. Við skulum að minnsta kosti reyna það til að byrja með. Ég vona svo sannarlega að varðandi þetta mál, skuldavanda heimilanna og lausn á því stóra, sameiginlega verkefni okkar, takist okkur að vinna saman í þinginu.

Ég benti á í andsvari mínu hvar í þessu plaggi sem hér er til umræðu er talað um að viðhafa eigi samstarf og samráð. Mig langar til að hvetja hv. þingmenn til að lesa það vel og rækilega og hvet þá til þess að gefast nú ekki upp á því að trúa því að það standi til áður en á það reynir. Ég er svolítið uggandi yfir því hvernig umræðan hefur þróast í þingsal í dag, en ég ætla bara að vera bjartsýn og vonast til þess að við náum árangri.

Herra forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar í tíu liðum sem segir okkur með hvaða hætti ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér að vinna að þessu stóra verkefni. Ég veit að hv. þingmenn hafa kynnt sér stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna þar sem er lögð mikil áhersla á að koma til móts við þann vanda sem íslensk heimili hafa glímt við frá hruni. Við leggjum jafnframt mikla áherslu á efnahagsmálin og þarna er að finna stóran kafla um að ábyrg efnahagsstjórn sé forsenda velferðar. Þetta mun allt saman þurfa að spila og stilla saman. Við ætlum okkur að bæta vinnubrögð og vanda okkur við það sem gert er. Ég vonast til þess að stjórnarandstaðan verði með öflugt aðhald og bendi okkur á hvað betur megi fara.

Mig langar að tæpa á nokkrum atriðum varðandi þau verkefni sem sett eru fram í aðgerðaáætluninni og þá í fyrsta lagi 4. lið. Þar er talað um að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Þetta er gríðarstórt verkefni og var rætt hér oft á síðasta kjörtímabili. Við ætlum okkur að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála og það er gríðarlega mikilvægt að það liggi fyrir hið fyrsta hvernig við sjáum fyrir okkur þróun húsnæðismála á Íslandi, vegna þess að við hljótum öll að gera okkur ljóst að hér þarf að fara í grundvallarbreytingar.

Það dugir auðvitað ekki að halda því fram að að sú einfalda aðgerð að færa öll húsnæðislán úr því að vera verðtryggð yfir í að vera óverðtryggð leysi allan vanda. Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram, sérstaklega ekki með tilliti til þess hvernig markaðurinn er einmitt núna. Við hljótum öll að átta okkur á því, ef við sýnum fulla sanngirni þegar við horfum á verkefnið, að við þurfum að horfa á þetta í heild.

Við þurfum jafnframt að tryggja að ungt fólk og fólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign hafi möguleika á því og úrræði til þess að leggja fram fyrstu útborgun. Og við þurfum að tryggja að það séu hvatar í kerfinu til sparnaðar, vegna þess að sparnaður er það sem við þurfum að leggja höfuðáherslu á á þessu kjörtímabili. Það er fátt brýnna en að fólk átti sig á því og við öll sem hér erum að það að leggja til hliðar og eiga fyrir hlutum, sérstaklega útborgun í stærstu einstöku fjárfestingu hvers heimilis, þ.e. fasteigninni sjálfri, er gríðarlega mikilvægt.

Ég hlakka til að sjá hvernig þessar tillögur sem á að leggja fram í upphafi árs 2014 munu líta út. Og ég hlakka til samráðs við alla þá sem að málinu koma, þar á meðal stjórnarandstöðunnar.

Við áttum á síðasta kjörtímabili nokkrum sinnum orðastað um Íbúðalánasjóð og framtíð sjóðsins. Við vorum auðvitað ekki öll sammála um það hvernig við sæjum fyrir okkur sjóðinn, en ég held að við hljótum öll að gera okkur grein fyrir því að þar þurfa að verða breytingar á.

Herra forseti. Mig langar í annan stað að minnast aðeins á 10. lið, sem fjallar um það að Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Það frumvarp kemur fram á þinginu í sumar og ég vonast til að við náum að klára það.

Á síðasta kjörtímabili, allt frá því að við hófumst handa við að reyna að finna lausnir á vanda heimilanna, rákum við okkur á að enginn var sammála um það í hverju vandinn væri fólginn. Upplýsingarnar voru mjög misvísandi um það hvort um væri að ræða umfangsmikinn vanda, mikinn vanda eða lítinn. Það var algjörlega ljóst frá mínum bæjardyrum séð að það yrði að setja á fót einhvern vettvang, einhvern einn aðila til að halda utan um þetta og hafa opinberar tölur um hvað ætti að horfa á þegar maður væri að reyna að finna út hvar væri best að grípa inn í af hálfu ríkisvaldsins.

Lögð voru fram frumvörp á þinginu, bæði af þáverandi hæstv. ráðherra Árna Páli Árnasyni, sem nú er hv. þingmaður, og frá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Þau mál fóru ekki í gegnum þingið. Það er miður. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að til standi að gera hér bragarbót. Ég er ekki bara að hugsa um að við fáum fram upplýsingar til þess að nota núna, heldur er ég að hugsa til framtíðar. Ég vil ekki að þingmenn þurfi aftur að lenda í því einhvern tímann seinna á Íslandi að hafa ekki nauðsynlegar upplýsingar í höndunum þegar á þarf að halda.

Ég fagna þessu því sérstaklega og vona að við náum að koma málinu vel og örugglega í gegnum þingið. Það er mjög mikilvægt upp á framtíðina að gera.

Mig langar líka aðeins að minnast á lið nr. 9, um stimpilgjöldin. Stimpilgjöldin voru einmitt mjög til umræðu á síðasta kjörtímabili. Hér stendur til að flýta vinnu um þau, skipuð hefur verið nefnd og starfshópur til að fara yfir það hvernig hægt er að afnema þau eða breyta þeim umtalsvert. Ég fagna því að þeirri vinnu verði hraðað og hér er lagt til að leggja fram frumvarp um þetta í þinginu strax í haust. Þetta er mikilvægt fyrir þá sem eru að fjárfesta í íbúð og kemur til með að hvetja og aðstoða fólk við að fjárfesta í eigin fasteign.

Flestar aðrar tillögur hafa orðið tilefni til skoðanaskipta hér í dag, en mig langaði til að minnast sérstaklega á þessar sem ég hef nefnt hér þar sem þær voru ekki ræddar. Ég vona svo sannarlega, herra forseti, að okkur beri gæfa til að vinna hratt og vel en örugglega og í samvinnu allra sem þurfa að koma að þessum stóru úrlausnarmálum, vegna þess að við vitum öll hér inni að vandi heimilanna var stærsta málið í aðdraganda kosninga.

Ég verð að segja að fram hafa komið tiltölulega misvísandi yfirlýsingar í þessum stól um hvað menn vilji gera, í fyrsta lagi hvort menn vilji bara hreint og beint að kosningaloforð einstakra tiltekinna stjórnmálaflokka verði lögð fram í frumvarpsformi strax á fyrstu dögum þingsins og reynt að keyra þau þannig í gegn eða í annan stað að við setjumst saman yfir verkefnið og reynum að finna réttu lausnina. Ég tel í ljósi reynslunnar á síðasta kjörtímabili að síðarnefnda leiðin sé betri. Auðvitað kemur hugmyndin og áherslan frá ríkisstjórnarflokkunum, en við ætlum okkur að vinna þetta saman. Það er besta leiðin. Ég tel að almenningur í landinu og allir þeir sem á okkur hlusta trúi og treysti því að við ætlum okkur að vinna þannig. Ég vona það svo sannarlega.

Síðan langar mig að hvetja fólk til að vera svolítið jákvætt. Það er allt í lagi að vera hreinskilinn og gagnrýninn og allt það, en eigum við ekki að einsetja okkur að vera svolítið jákvæð og trúa því að við getum og ætlum að gera góða hluti og taka á þessu stóra verkefni? Ég trúi því. Ég trúi á okkur öll hér og að við getum ráðið við þetta verkefni. Ég hvet okkur öll, sama hvar í flokki við erum, til að vinna af fullum krafti að því að leysa það stóra verkefni sem okkur hefur verið trúað fyrir.