143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað hreinn útúrsnúningur hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í.)Þeir sem lægst hafa launin njóta sérstaks skjóls í tekjuskattslögunum. Í sjálfu sér hefur ríkissjóður úr afskaplega litlu að spila þegar þeir sem eru á lægstu laununum greiða þegar upp er staðið nánast engan skatt til ríkissjóðs, eins og ég rakti í löngu máli í ræðu minni hér áðan. Sá afsláttur hefði þá meira eða minna runnið til sveitarfélaganna. En þeir greiða lægsta skattinn, lægstu skattprósentuna og njóta góðs af margvíslegum aðgerðum (Gripið fram í.) sem eru útgjaldafrekar í þessu fjárlagafrumvarpi þannig að þeim er sérstaklega hlíft. Að ég minnist ekki á þá 5–8 milljarða, eftir því hvernig maður horfir á það, sem bætt er í í bótagreiðslur úr tryggingakerfinu til ellilífeyris- og örorkuþega og það grundvallast allt á því að verið er að afnema skerðingar sem sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í hafði beitt (Gripið fram í.) til að draga úr hallarekstri ríkissjóðs. (Gripið fram í.)