144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[15:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki góður kostur að hringla í skipulagi ráðuneyta innanríkisráðuneytisins frekar en annarra ráðuneyta út af hörmungarmáli eins og þessu. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra verður nú að þola það að rætt sé um málin í dag, eins og menn megi það ekki vegna þess að eitthvað annað kunni einhvern tímann að hafa gerst áður. Það er reyndar skondin niðurstaða af þessu máli að hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er orðinn undirráðherra í innanríkisráðuneytinu, undir hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem fer með yfirstjórn ráðuneytisins samkvæmt forsetaúrskurðinum.

Það er mér með öllu óskiljanlegt að hæstv. ráðherra skyldi ekki stíga til hliðar eða a.m.k. færa að færa sig í annað ráðuneyti og annar ráðherra færi þá tímabundið með innanríkisráðuneytið þegar í stað eftir að lögreglurannsóknin hófst. Það er óskiljanlegt. Var enginn með dómgreind eða reynslu þarna á bænum til þess að benda á hið augljósa í þessu máli? Lögreglurannsókn á ráðuneyti nánast án fordæma er grafalvarlegt mál, hvaða ráðuneyti sem á í hlut. Ef hún beinist að ráðherranum sjálfum, aðstoðarmönnum hans og æðstu embættismönnum, hvað þá ef í hlut á sjálft ráðuneyti lögreglu- og dómsmála — ráðuneytið sem fer með réttarfarsmál í landinu, að það sæti rannsókn lögreglu, undirstofnunar, er svo fráleit staða að ég skil bara ekki það dómgreindarleysi, reynsluleysi eða andvaraleysi sem þar var á ferð.

Það er ekki einkamál hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Því er það eðlilegt að taka upp við forustumenn ríkisstjórnarflokkanna: Hvernig gat þetta gerst, samanber öll vandræðin sem af því hafa hlotist og þarf ekki að vísa til? Þannig að ég tel ekki nema eðlilegt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og þá ekki síður hæstv. forsætisráðherra, sem ber auðvitað yfirábyrgð á því að (Forseti hringir.) svona hlutir gerist ekki í hans ríkisstjórn, séu teknir upp í þeim efnum.