144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[16:04]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Án þess að vilja hljóma klisjukennd held ég að hér sé fullkomin birtingarmynd af því þegar landsmenn kalla eftir og eiga skilið auðmýkt hjá leiðtogum sínum þar sem stolt og staðfesta er lögð til hliðar og traust á Alþingi og stjórnsýslan í heild er sett í fyrsta sæti. Framkvæmdarvaldið, einstök embætti og stjórnsýslan er nefnilega mun stærra en einstaka persónur innan hennar.

Það er nefnilega ekki bara í lagi heldur nauðsynlegt að leiðtogar okkar geti viðurkennt vanmátt sinn þegar svona alvarleg mál koma upp, tekið ábyrgð og stigið til hliðar þegar störf þeirra og náinna samstarfsmanna þeirra eru til rannsóknar. Með því mundi hæstv. ráðherra sýna auðmýkt og styrk í senn. Það er sárt að horfa upp á atburðarás sem verður eiginlega bara vandræðalegri og vandræðalegri með hverjum deginum sem líður.

Eftir heila rannsóknarskýrslu um lélega stjórnarhætti í aðdraganda hrunsins hljótum við að geta gert betur. Hvenær ætlar Alþingi að vera til fyrirmyndar í vönduðum stjórnarháttum?