146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska Framsóknarmönnum og -konum til hamingju með afmælið á morgun. Málið er mér skylt, langafi minn kom nú að þeim hræringum sem urðu af stofnun Framsóknarflokksins, þó að ég játi það að ég hafi ekki alltaf flíkað því.

Mig langar að ræða mun alvarlegra mál en það, sem er staða og aðbúnaður hælisleitenda hér á landi. Það er engum blöðum um að fletta að ástæða þess að ég kem hér upp og ræði þetta núna eru hörmulegar fregnir af skelfilegum atburðum sem við höfum heyrt hér í fréttum undanfarið og fregnir af slæmum aðbúnaði sem ég held að allir séu sammála um að séu hvað þessi mál varðar. Það bárust fregnir af því í gær að settir verði auknir fjármunir í þennan málaflokk í fjáraukalögunum, hundruð milljóna kr. að mér skilst, sem er vel, en engu að síður er staðan sú að þetta snýst ekki eingöngu um krónur og aura. Það er gott að setja aukna fjármuni í málaflokkinn, og ekki bara gott heldur nauðsynlegt, en það þarf að huga að þessum málum mun heildstæðara en svo.

Ég er með fyrirspurn í vinnslu um þennan málaflokk þar sem ég bið um svör við því hvernig aðbúnaði er háttað, hvernig hælisleitendur fá aðgang að þeirri aðstoð sem nauðsynleg er, sérstaklega hvað varðar heilbrigðisþjónustu, af því að fyrir mér snýst þetta fyrst og fremst um mannúð. Peningar geta verið hreyfiafl hlutanna, en á endanum snýst þetta um þann aðbúnað sem við teljum okkur sæmandi að veita fólki sem þarf virkilega á aðstoð að halda. Við þurfum að skoða þennan málaflokk í grunninn og ég hlakka til að fá svör við þeirri fyrirspurn sem ég hyggst leggja fram um málið á næstunni.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna