149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

stefnumótun í heilbrigðismálum.

[15:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um stefnumótun í heilbrigðisþjónustu landsins. Vilji landsmanna til heilbrigðismála hefur verið kannaður ítrekað, fyrir kosningar síðast og þarsíðast og virðist vera alveg skýrt að landsmenn vilji umfram allt fá trausta og góða opinbera heilbrigðisþjónustu. Geri ég ráð fyrir að sá vilji hafi ekkert minnkað og heyrir maður a.m.k. ákall landsmanna um nauðsynlega þjónustu í hverri viku, og raunar nánast daglega þessi misserin.

Við í Samfylkingunni fögnum innilega þeirri vinnu sem nú er sögð í gangi í heilbrigðisráðuneytinu þar sem verið er að útbúa heildstæða heilbrigðisstefnu fyrir Ísland, sem ég tel vera löngu tímabært að fara í. En ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því að á meðan á þeirri stefnumótunarvinnu stendur falli niður nauðsynleg þjónusta. Hér er um að ræða þjónustu þeirra frjálsu félagasamtaka sem sinnt hafa ýmsum störfum er varðar líknarþjónustu, þjónusta er varðar geðheilbrigðismál, meðferðarþjónusta fyrir fíkla og áfengissjúklinga, þjónusta við heilabilaða, sjúkraflutningar og fleira. Við erum að tala um Hugarafl og Karitas, Rauða krossinn, Krýsuvík og fleira og fleira sem virðist ýmist vera búið að loka, að fara að loka — a.m.k. eru engir samningar.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í þá vinnu sem er í gangi í ráðuneytinu varðandi stefnumótun í heilbrigðismálum: Hvenær má vænta einhverra tíðinda? Mun það gerast á þessu ári, hæstv. ráðherra? Mun það gerast á næsta ári? Mun það gerast á þessu kjörtímabili? Ég held að við öll, landsmenn, þurfum eiginlega að vita eitthvað um tímarammann á því verki.