150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

útboð á sjúkraþjálfun.

[15:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. 2017 voru gerðar breytingar á greiðsluþátttöku læknisþjónustu þannig að eldri borgarar og öryrkjar greiddu aldrei meira en 49.300 kr. á ári fyrir þá þjónustu og börn yngri en 18 ára borga ekkert. Sjúkraþjálfun var með þeirri aðgerð gerð aðgengileg fyrir alla. Þetta var frábært framtak og gaf veiku fólki sem hafði ekki efni á sjúkraþjálfun tækifæri til að fá þá þjónustu, langþráða þjónustu sem hefur gríðarleg áhrif og hefur stórfækkað nýgengi öryrkja, sérstaklega dró úr fjölgun ungs fólks inn í örorkukerfið.

Það hafði einnig góð áhrif á útstreymi af sjúkrastofnunum eftir aðgerðir, t.d. átak við að fækka veiku fólki á biðlistum, hafði einnig áhrif á líkamlegt ástand þeirra sem eru á endalausum biðlistum eftir aðgerðum. Ég væri ekki í þessum ræðustól ef ég hefði ekki aðgang að sjúkraþjálfun. Það er staðreynd.

Útboð á rekstri sjúkraþjálfunar er lausn Sjúkratrygginga Íslands og í boði heilbrigðisráðherra. Nýtt kvótakerfi þar sem veiðikvótinn er veikt fólk sem þarf nauðsynlega á sjúkraþjálfun og halda, sjúklingar gerðir að söluvöru sem ganga kaupum og sölum á sjúkraþjálfunarkvótamarkaði. Er það eitthvað sem við viljum, að sjúklingar séu söluvara og að sá sem býður ódýrt fái pakkann óháð gæðum? Gæðum er fórnað fyrir hagkvæmni og afleiðingarnar verða ekki góðar.

Það sem gleymist í því útboði er við áttum okkur á því hvernig þetta útboð á að fara fram. Sjúkraþjálfarar fá engar upplýsingar um það. Er höfuðborgarsvæðið eitt svæði? Verða hreppaflutningar ef öll útboð í sjúkraþjálfun verða boðin út í Reykjavík? Þurfa þá Hafnfirðingar, Mosfellsbæingar, Kópavogsbúar, allir að fara til Reykjavíkur til að fara í sjúkraþjálfun? Hvernig á að taka á þeim gífurlegu biðlistum sem eru nú þegar eftir sjúkraþjálfun? Hvaða áhrif mun það hafa á kerfið sem er nú þegar komið að þolmörkum?

Við vitum hvernig ástandið er á bráðamóttöku. Við vitum hvernig ástandið er á sjúkrahúsunum og ég spyr ráðherra: Á núna loks þegar sjúkraþjálfunarkerfið er komið í almennilegt ástand að rústa því?