150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

útflutningur á óunnum fiski.

[15:09]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn minni til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Samkvæmt ársskýrslum Fiskistofu var útflutningur í gámum á ferskum fiski tæp 24.000 tonn árið 2013 en árið 2018 voru flutt út 42.000 tonn óunnin. Okkur ætti öllum að vera ljóst að hægt er að vinna hvern einasta sporð hér á landi. Hefur ráðherra eitthvað velt fyrir sér að taka á því máli? Ég vil benda á að mörg störf við fiskvinnslu glatast, svo ekki sé minnst á þau afleiddu störf sem tapast einnig. Á þeim tíma þegar skip sigldu með afla, eða a.m.k. hluta þess tíma, var lagt álag á þá sem fluttu út óunninn afla og varð það alveg örugglega til þess að minna var flutt út á þeim tíma óunnið. Það er enginn munur á því hvort skip sigli sjálft með afla eða flutningaskip.

Ég spyr því ráðherra: Hefur ráðherrann velt því fyrir sér að stöðva þessa þróun og þá hvernig?