150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

vextir og verðtrygging.

13. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni í dag og þeim sem hafa hlýtt á hana lengur eða skemur. Verðtryggingin hefur staðið allt of lengi hér á Íslandi — í 40 ár. Hún kom til sem þrautaráð í tíð ríkisstjórnar Ólafs heitins Jóhannessonar, þess mæta manns, árið 1979. Hún er í lögum um stjórn efnahagsmála og fleira, nr. 13/1979, og hefur grafið sig djúpt í fjármálalífið og í hugarheim margs fólks, eins og má heyra hjá sumum, kannski sérstaklega einum hv. þingmanni, sem muna ekkert annað en að þetta sé svona. En verðtryggingin er ekki eins og Esjan. Esjan er hér og hún fer hvergi en verðtryggingin er mannanna verk. Það er á færi manna að ákveða að hún fari. Og af hverju á hún að fara? Það er vegna þess að hún er ekki boðleg. Hún er ranglát í eðli sínu. Það hallar á þann aðilann í samningssambandinu sem hefur veikari stöðuna. Skipting áhættu er með þeim hætti að öll áhætta vegna verðlagsbreytinga er sett á veikari aðilann í samningssambandinu. Síðan hefur verið sýnt fram á það, m.a. af fræðimönnum — og þetta er viðfangsefni sem er rannsakað í alþjóðlegum fræðiritum — að vísitölur af þessu tagi hafa í för með sér veikleika sem liggur í sjálfu kerfinu. Þessi veikleiki hefur stundum, eins og ég nefndi, verið kallaður vísitölubjagi. Lántakandi, veikari aðilinn í samningssambandinu, ber alla áhættu af þessari kerfislægu skekkju. Miðað við að við eigi tölur um stærð þeirrar skekkju, eins og hún hefur verið metin af hálfu viðurkenndra fræðimanna á alþjóðlegum vettvangi, geta þær tölur sem hafa verið lagðar á heimilin vegna kerfislægrar skekkju á hverju ári hlaupið á milljörðum ef ekki tugmilljörðum. Sjá menn skeytingarleysið gagnvart heimilunum þegar menn standa frammi fyrir staðreyndum eins og þeim sem eru settar fram í svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í fyrirspurn frá þeim sem hér stendur um það hvaða auknu byrðar húsnæðisliður vísitölunnar hafi lagt á heimilin á árabilinu 2012–2017? Svar hæstv. ráðherra, vandað, vel unnið og ítarlegt, var að á meðan almennar verðlagsbreytingar í landinu hefðu getað gefið tilefni til þess að húsnæðislánin bættu á sig 15 milljörðum vegna almennra verðlagsbreytinga, þeirra sem almennt eru kallaðar verðbólga, hafi húsnæðisliðurinn lagt ofan á 118 milljarða. Þetta eru svo stórar tölur, herra forseti, að kannski eru þær einhvern veginn fyrir utan hugarheim venjulegs fólks. En þeir sem taka að sér ábyrgð á landstjórninni og opinberum málefnum geta ekki leyft sér að horfa fram hjá slíkum tölum.

Ég fagna því, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli hafa, í tengslum við hina svokölluðu lífskjarasamninga, sent frá sér þá yfirlýsingu sem ég gerði að umtalsefni í fyrri ræðu minni, um markviss skref til afnáms verðtryggingar. Ég held að það gangi þess ekki nokkur maður dulinn að sú yfirlýsing er til komin fyrir harðfylgi nýrrar forystusveitar í verkalýðshreyfingunni. Þá er ég sérstaklega að tala um Alþýðusambandið og forystumenn í mikilvægum verkalýðsfélögum. Þökk sé þeim fyrir þeirra dugnað, elju og þá atorku að hafa náð þeim árangri sem fékkst í því að ríkisstjórnin er búin að taka upp tvö af fjórum atriðum í þessu frumvarpi, þ.e. húsnæðisliðinn annars vegar og eitraða kokteilinn hins vegar. Eitraði kokteillinn eru 40 ára annúítets-lán sem eru þeirrar náttúru að þó að búið sé að borga í 20 ár lækkar höfuðstóllinn ekki um eina krónu en getur þvert á móti hækkað. Sjá menn fyrir sér hvernig slíku fyrirkomulagi yrði tekið í nágrannalöndunum?

Ég hafði reyndar tækifæri fyrir nokkrum árum til að ræða þetta við erlenda blaðamenn. Það sem þýski blaðamaðurinn sagði við mig er minnisstætt. Hann sagði: Ef þetta væri svona hjá okkur væri búið að reisa götuvígi. Hollenski blaðamaðurinn hafði svipuð orð. Í Danmörku er mjög rótgróið fyrirkomulag á húsnæðislánum. Þeir hafa stofnanir sem standa mjög traustum fótum, hafa lengi starfað í dönsku samfélagi og eru þar taldar mjög mikilvægar. Danir kenna þær stofnanir á sinni tungu við „Realkredit“. Ég leyfi mér að að leggja til að við kynnum okkur til hlítar, sérstaklega stjórnvöld, starfsemi þessarar stofnunar og taki þær sér til fyrirmyndar. Stundum fær maður tækifæri til að ræða við ungt fólk sem hefur tekið sér bólfestu í Danmörku. Mikil er gleði þess fólks yfir þeim lífskjörum sem þar bjóðast, og þá sérstaklega ungu fólki með fjölskyldur, þegar kemur að því að fjármagna íbúðarhúsnæði. Þetta fólk fýsir ekki að koma hingað í ískaldan náðarfaðm verðtryggingarinnar þar sem svo hart er gengið að fólki að jaðrar við að það sé svipt fjárhagslegu forræði meðan á lánstímanum stendur.

Herra forseti. Þetta frumvarp er borið fram af öllum þingmönnum Miðflokksins. Athygli vekur að aðrir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa ekki sýnt sérstaka einbeitni gagnvart verðtryggingunni. Reyndar er það svo að sumir stjórnmálaflokkar hafa lýst því og fara ekki í launkofa með það að þeir telja verðtrygginguna vera óumflýjanlegan þátt í íslensku samfélagi meðan við erum ekki að fullu gengin í Evrópusambandið og búin að taka upp evruna. Það er ágætt að menn bara viti af því og þeir hafa út af fyrir sig ekkert farið í launkofa með þá afstöðu sína og það er heiðarlegt af þeim.

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði, að þetta frumvarp er út af fyrir sig í sínum innsta kjarna ekki flókið. Hér eru fjögur einföld atriði tekin upp til að veita verðtryggingarfyrirkomulaginu það aðhald sem það hefur ekki haft um langan tíma. Þau atriði eru: Að óbeinir skattar reiknist ekki inn í vísitöluna. Svo að ég taki dæmi: Það að ríkisstjórnin gerist aðili að loftslagssamkomulagi í París og ákveði í framhaldinu að leggja á svokallað kolefnisgjald til að ná fram markmiðum í loftslagsmálum leiði ekki af sér að lagðar séu sérstakar viðbótarbyrðar á fólk sem leyfir sér að efna til þess að kaupa húsnæði til að fjölskyldan, foreldrarnir og börnin, hafi þak yfir höfuðið. Hvað kemur mönnum til að telja að slíkt geti verið eðlilegt fyrirkomulag? Í annan stað felur frumvarpið í sér að húsnæðisliðurinn — sem er heimatilbúinn og styðst ekki við neinar erlendar fyrirmyndir, gengur þvert á mikilvægar fyrirmyndir sem við gætum litið til í Svíþjóð og í Kanada — fari út úr vísitölunni. Ég ítreka að ég fagna því að ríkisstjórnin skuli taka undir það. Í þriðja lagi að tekið sé fyrir það að menn rati í þá stöðu að efna til lánasambands sem er þannig að meðan á því stendur, fyrstu 20 árin af 40, lækkar höfuðstóll lánsins ekki um krónu heldur hækkar, ef verðhækkanir verða á tímabilinu. Og loks á að setja þak á vextina og það er rökstutt, eins og ég hef áður rakið ítarlega, með því að ákvarðanir um þá vexti eru teknar við skilyrði fákeppni. Þá fer nú að styttast í skilyrði einokunar, ef því er að skipta, vegna eins konar samstarfs. Þó að ekki sé um formlegt samstarf að ræða er stutt í gagnkvæman skilning á milli aðila sem leiðir af sér áþekka niðurstöðu eins og ef um einokun væri að ræða. Annars vegar þetta atriði og svo hitt, að vextir á verðtryggðum skuldbindingum eru ákveðnir í því tómarúmi að ekki er við erlendar fyrirmyndir að styðjast. Þetta er náttúrlega með öllu óboðlegt.

Innsti kjarninn í þessu máli er að þetta kerfi, fyrir utan að vera veikburða verkfræðileg tilraun til að takast á við viðfangsefni í lífrænu, kviku efnahagslífi, er ranglátt, eins og reynslan sýnir svo glögglega. Það er ósanngjarnt. Þetta kerfi verður að víkja. Við getum gert betur. Við eigum að viðurkenna að framfarir hafa orðið á Íslandi. Efnahagslífið er óþekkjanlegt, þjóðarbúskapurinn er óþekkjanlegur. Hann er miklu fjölþættari og sterkari en hann var fyrir 40 árum. Fjármála- og peningakerfið er gjörsamlega óþekkjanlegt. Við erum komin með fjölmargar stofnanir sem geta rækt verkefni varðandi ávöxtun og miðlun fjár. Það nær ekki máli, herra forseti, að við búum við heimatilbúið kerfi sem hvergi nokkurs staðar annars staðar yrði þolað eða liðið eftir að við erum búin að ná slíkum framförum í okkar þjóðarbúskap, í efnahagsmálum og í fjármálalífi, en þetta eitt situr eftir. Þetta verður að víkja og það fyrr en síðar.