151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Aðeins hefur verið rætt um Nýsköpunarmiðstöð hér í dag og ákvörðun ráðherra um að leggja hana niður og færa verkefnin annað. Ég ætla ekki að lýsa mig andsnúna þeim áformum ráðherra. Ég tel eðlilegt að við skoðum næstu skref hjá þessari annars merku stofnun, sem byggir á gömlum grunni, sem hefur kannski ekki alltaf eingöngu verið tengd nýsköpun heldur líka öðrum mikilvægum þáttum, byggingarrannsóknum o.fl. Ég vil hins vegar hvetja ráðherra til að veita og miðla upplýsingum um ferlið. Upplýsingar eru pínulítið óljósar en ég vil leyfa mér að lýsa því yfir, alla vega fyrir mína hönd, að ég tel þetta skref rétt og að farið verði í aukið samstarf og samvinnu við aðrar stofnanir og aðra klasa, háskóla og fyrirtæki. Ég ætla ekki að tala gegn þessum breytingum heldur hvetja ráðherra til dáða í að auka upplýsingar og efla samtal við aðila á því mikilvæga sviði.

Vissulega hafa framlög til nýsköpunar verið aukin en við sjáum engu að síður að úthlutunarhlutfallið er að lækka. Mikil ásókn er í rannsókna- og tækniþróunarsjóði. Ég spyr ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir enn frekari hækkun til rannsóknar- og nýsköpunarsjóðanna til að við missum ekki þær hugmyndir sem verið er að setja fram. Mig langar líka til að spyrja hvort enn frekar eigi að auka hvata innan nýsköpunarstyrkjafyrirkomulagsins þannig að háskólamenntað og iðnmenntað fólk í atvinnuleit geti, í samvinnu við Vinnumálastofnun og atvinnulífið, leitað inn í nýsköpunarfyrirtækin. Ef það eru einhver fyrirtæki á Íslandi sem þurfa að geta ráðið til sín fólk til að byggja upp grunninn þá eru það nýsköpunarfyrirtækin. Ég tel að þau muni koma mun sterkari út úr þessu kófi og þessari kreppu ef við tökum sérstaklega utan um þau og veitum þeim svigrúm, stuðning og styrk til þess einmitt að ráða til sín það fólk sem nú er atvinnulaust og ekki síst háskólamenntað fólk.