154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

staða umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir synjun.

[15:46]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður kallar tuggur frá því í mars, það eru bara lögin í landinu. Það eru þær tuggur sem hv. þingmaður er hér að nefna og fer þannig kannski ekki mjög fögrum orðum um félagsþjónustulögin en það verður hv. þingmaður að eiga við sig sjálfur. Ég man eftir einu símtali sem ég hef fengið sem ég náði ekki að svara. Það skal ég alveg fúslega viðurkenna. Ég kannast ekki við að hafa fengið marga tölvupósta en það má þá alltaf bara senda þá á mig aftur.

Ég nefndi það hér áðan að við viljum ekki hafa fólk á götunni, það er stóra málið. Það er verið að vinna að lausnum hvað það varðar. En ég ítreka að gildandi lög í landinu eru einfaldlega þannig að leiti einstaklingur til dvalarsveitarfélags, útlendingur í þessari stöðu, þá ber sveitarfélaginu að taka mál viðkomandi einstaklings fyrir. Þannig eru lögin í landinu sem hv. þingmaður kallaði hér tuggu áðan.