135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:33]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar framkvæmd slíkrar athugunar þá held ég að betur færi á að því væri beint til ríkisstjórnarinnar að skipuð yrði sérfræðinganefnd til að fara yfir alla þessa sögu og afleiðingar einkavæðingar. Ég er ekki viss um að það væri best að gera með því að tilskipaðir séu pólitískir fulltrúar, einn frá hverjum þingflokki, einn frá BSRB, með allri mögulegri virðingu fyrir þeim ágætu samtökum eða frá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ. Ég held að það færi betur á að skipuð yrði sérfræðinganefnd til að kanna þetta og fara yfir þetta. Það væri þá ekki litað pólitískum viðhorfum heldur nálguðust menn málið út frá faglegum forsendum.

Hvað varðar einkavæðingu Búnaðarbankans eða söluna á Búnaðarbankanum þá ætla ég ekki að gefa ein eða nein vottorð um hana. Ég hef komið inn á að þegar kallað var eftir tilboðum í Búnaðarbankann, bárust ef ég man rétt, tilboð frá þremur hópum. Eitt var frá svokölluðum S-hópi, eitt frá svokölluðum Kaldbak og annað frá Samson-hópnum. Samson-hópurinn hafði þá nýverið keypt Landsbankann og kom þess vegna vart til greina sem kaupandi. Þá voru eftir tveir hópar og annar hópurinn bauð betur en hinn. Þannig gekk málið fyrir sig í hnotskurn. Þetta er ekki allt hafið yfir vafa, hv. þingmaður, ekki alveg. Ég skal fallast á það. En þó tel ég að meginlínurnar hafi verið þessar og ég fullyrði að þeir sem þar stóðu að og sátu í einkavæðingarnefnd hafi reynt að vinna sína vinnu jafn vel og kostur var á.

Hvað varðar breytingarnar á samfélaginu hefur það gerst að velmegun á Íslandi hefur vaxið meira en nokkru sinni fyrr. Þetta sambland af einkavæðingu, lækkun á sköttum, einföldun á regluverki viðskiptalífsins og inngangan í EES, hefur allt spilað saman til að gjörbreyta þessu samfélagi. Ég tel að það hafi breyst til hins betra. Samfélagið getur veitt þegnum sínum meiri lífsgæði, hvort heldur er í formi opinberrar þjónustu eins og heilbrigðisþjónustunnar, menntakerfisins og hærri laun. Ég tel að það sé engin spurning um að við höfum gengið (Forseti hringir.) þá götu til góðs.