135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[17:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að blanda sér í umræðuna og ég óska hv. þm. Þorvaldi Ingvarssyni til hamingju með ræðuna, ég hef ekki heyrt hann flytja ræðu hér fyrr. Ég hygg að hv. þingmaður hafi mikla reynslu af heilbrigðismálum og það er ágætt að fá hans innlegg inn í umræðuna.

Ég fagna þeim áhuga sem hv. þingmenn, m.a. í Sjálfstæðisflokknum, sýna því að tekin sé umræða um einkavæðinguna og hvernig hún hefur tekist til, einkavæðing og markaðsvæðing á samfélagsþjónustunni. Að sjálfsögðu geta menn nefnt dæmi um að eitthvað hafi tekist vel, enda er þessi þingsályktunartillaga ekki sett fram bara til að mæla eitthvað sem hefur örugglega tekist illa, alls ekki, heldur til að fá sem sannasta mynd af því sem hefur verið að gerast varðandi ákveðna samfélagsþætti núna einmitt í markaðsvæðingu almannaþjónustunnar og hvort ekki sé rétt að staldra við og meta það, því að það er í sjálfu sér stórpólitískt mál að meta það áður en farið er út í stóra þætti, nýja, eins og t.d. markaðsvæðingu og einkavæðingu á heilbrigðisþjónustunni þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst sérstakri ánægju með að vera kominn í samstjórn með Samfylkingunni svo hægt sé að gera stórátak í einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.