135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:48]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örlítið fyrst um lagasetninguna sjálfa á sumarþinginu, sem hv. þingmaður vék að. Eins og ég gat um í framsögu minni tek ég heils hugar undir það með þingmönnum að þetta mál hefði að sjálfsögðu átt að koma inn á sumarþing til þeirrar hefðbundnu afgreiðslu sem það er í núna. Þá var nógur tími til þess að afgreiða það. En ekki var komið með málið til mín eða ríkisstjórnarinnar fyrr en eftir að sumarþingi lauk. Þá stóðum við frammi fyrir þremur valkostum: Að stoppa af þá starfsemi sem var fyrirhuguð þarna, auglýst og margboðuð, og átti að hefjast um miðjan ágúst, setja bráðabirgðalög eða kalla þing saman aftur. Tilefnið þótti einfaldlega ekki nægjanlegt til þess að kalla þingið saman en bráðabirgðalög voru sett af því að málið var samt sem áður mjög brýnt enda kæmu lögin að sjálfsögðu til meðferðar Alþingis strax á fyrstu dögum þingsins. Við töldum það skástu leiðina í málinu af því að gífurlega miklir hagsmunir voru í húfi, þeir hagsmunir að koma mannvirkjum fyrir milljarða í gagnið þarna suður frá, hefja skólastarf og leigja út íbúðir til nýstúdenta á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum o.s.frv. Það var engin spurning í mínum huga að þessu þurfti að koma í gagnið og þetta var skásta leiðin í stöðunni.

Hvað varðar öryggismál og meðferð eigna þá er Þróunarfélagið hf. einfaldlega með umsýslu eignanna og er náttúrlega rekið eins og hvert annað fyrirtæki og tekjustofnar eru hér og þar, þeir voru að selja Keili o.s.frv. Það er ekki á mínu borði þannig að ég þekki ekki smáatriðin í þeirri sögu. Þetta einstaka mál snýr að mér og sem betur fer er það komið til þingsins til meðferðar.