138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:24]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans framlagningu á frumvarpinu, fyrir ítarlega ræðu, og óska honum velfarnaðar í erfiðu starfi við það verkefni sem fram undan er við gerð þessa frumvarps.

Frumvarpið er lagt fram við allsérstakar aðstæður svo ekki sé meira sagt. Fjárlög eiga að gefa okkur til kynna hvað komandi ár muni bera með sér og hvaða stefnu stjórnvöld setja sér til að stuðla að auknum lífsgæðum þjóðar sinnar.

Nú háttar svo til að sjaldan eða aldrei hefur verið meiri eftirspurn eftir þeirri sýn en einmitt um þessar mundir. Og nú háttar svo til að sjaldan eða aldrei hefur verið meiri óvissa í öllum meginatriðum sem snerta fjárlagagerð ríkisins, hvernig sem á frumvarpið er litið.

Ef horft er til þess hvernig ríkisstjórnin ber sig að við framlagningu frumvarpsins rennur mörgum kalt vatn milli skinns og hörunds. Fyrir það fyrsta hangir líf stjórnarinnar á bláþræði, óeining, sérstaklega innan annars ríkisstjórnarflokksins, þjakar umræðu dagsins og litar stjórnarsamstarfið dökkum litum. Í stað gagnkvæms trúnaðar og trausts virðast boðskiptin einkennast fremur af fyrirmælapólitík en lausnum. Sumir þingmenn og ráðherrar í stjórnarliðinu koma við þessar aðstæður af fjöllum þegar einstaka atriði þessa frumvarps sem hér liggur fyrir í þessum ófullkomleika sínum eru borin undir þá.

Á sama tíma og Íslendingar glíma við það risavaxna verkefni að koma hjólum atvinnulífsins í landinu á réttan snúning og skjóta á ný styrkum stoðum undir efnahag þjóðarinnar er Stjórnarráðið og stjórnsýslan öll sett í þá stöðu að vera upptekin við ýmis pólitísk gæluverkefni sem bíða ættu betri tíma.

Á sama tíma og glímt er við eina erfiðustu fjárlagagerð ríkissjóðs í manna minnum, reynt er að byggja upp fjármálastarfsemi landsins á nýjan leik, unnið er að lausn einhverrar erfiðustu milliríkjadeilu síðari tíma, er hafin uppstokkun í Stjórnarráðinu og stjórnsýslunni allri með tilheyrandi átökum og óvissu sem hefur lamandi áhrif á starfsanda og afköst viðkomandi stofnana. Þessi óreiða öll og ringulreið setur óhjákvæmilega mark sitt á þau drög að fjárlagafrumvarpi sem nú eru lögð fram og eykur enn á þá óvissu sem svo brýnt er að eyða og við þurfum síst á að halda.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur margítrekað hve brýnt það er að setja fram trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum. Ríkisstjórninni hefur mistekist þetta verkefni, ef taka ber alvarlega frumvarp til fjárlaga næsta árs. Því miður ber það merki þess úrræða- og aðgerðaleysis sem einkennt hefur störf ríkisstjórnarinnar allt frá 1. febrúar og þó sérstaklega eftir að hið svokallaða Icesave-mál kom til hennar kasta. Sá heimatilbúni vandi svífur yfir og litar allan texta frumvarpsins.

Í gær var umræða hér á Alþingi utan dagskrár um hinn svokallaða stöðugleikasáttmála. Samkvæmt sáttmálanum, sem undirritaður var af ríkisstjórn og aðilum vinnumarkaðarins í sumar, var lögð áhersla á að hlutdeild tekjuöflunar í ríkisfjármálum yrði ekki of mikil. Miðað var við að skattar yrðu lækkandi hlutfall aðlögunaraðgerða og ekki samtals hærri en um 45% þeirra fyrir árin 2009–2011.

Nú þegar aðgerðir ársins 2009 liggja fyrir í formi bandormsins sem samþykktur var í sumar og fjárlagafrumvarp ársins 2010 hefur verið birt alþjóð er ljóst að aðilar stöðugleikasáttmálans telja verulega vegið að þeirri sáttargjörð. Um leið er vegið að heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Markmið stöðugleikasáttmálans var að aðilar sáttagerðarinnar sameinuðust um aðgerðir til að vinna þjóðina út úr vandanum sem við er að glíma. Markmið sáttmálans er að stuðla að endurreisn efnahagslífsins með þeim hætti að styrkja stöðu heimilanna, verja undirstöður velferðarkerfisins, standa vörð um menntakerfið og verja störf jafnt á almennum vinnumarkaði sem og hjá hinu opinbera eins og aðstæður frekast leyfa.

Því miður virðist sú sáttargjörð úr sögunni þar sem ríkisstjórnin hefur að mati aðila vinnumarkaðarins ekki staðið við þær skuldbindingar sem hún undirgekkst við gerð stöðugleikasáttmálans.

Þannig var í fjölmiðlum haft eftir forseta ASÍ að hann mæti stöðuna grafalvarlega og að hans mati hafi það svigrúm sem aðilar vinnumarkaðarins voru tilbúnir til að gefa stjórnvöldum til þess að taka ákvarðanir um endurreisn íslensks efnahagslífsins verið illa nýtt. Frá því í lok júní og til þessa dags hefur að mati ASÍ lítið sem ekkert gerst og vandamálin að stærstum hluta þau sömu.

Formaður Samtaka atvinnulífsins telur sömuleiðis þá óvissu sem fjárlagafrumvarpið hefur skapað fyrir atvinnulífið, m.a. vegna skattahækkana, vera mjög skaðlega. Vissulega hefðu aðilar sáttmálans talið þær hækkanir óumflýjanlegar, en þegar þær birtast að stórum hluta óunnar í fjárlagafrumvarpinu grípur um sig mikil hræðsla í atvinnulífinu auk þess sem áformin ganga mun lengra en um hafði verið samið.

Í stöðugleikasáttmálanum er ákvæði sem segir að gangi endurreisnin hægar en spáð var í júní væru aðilar sáttmálans sammála um nauðsyn þess að endurskoða í því ljósi aðhaldsaðgerðir aðgerðaáætlunar í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013, m.a. hagræna skiptingu tekna- og gjaldahliðar ríkisfjármála. Við skulum vona að ekki komi til þess að allt fari í bál og brand á vinnumarkaði ofan á öll önnur þau vandræði sem við er að glíma. Óskandi er að menn nái að vinna að nýju upp nægilegt traust milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að ná nýrri sáttargjörð sem byggi á sömu markmiðum og fyrr.

Til þess að svo megi verða virðist óhjákvæmilegt að endurskrifa þurfi þau áform sem sett eru fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Í stað þess að fjárlög næsta árs dýpki og herði á þeim erfiðu aðstæðum sem heimili og fyrirtæki landsins þurfa að búa við í efnahagslegu tilliti verða fjárlögin að gefa þjóðinni færi á að vaxa út úr kreppunni.

Á sama tíma og efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins gera ráð fyrir 11% rýrnun kaupmáttar ráðstöfunartekna, tæplega 11% atvinnuleysi og 2% neikvæðum hagvexti og 5% verðbólgu á næsta ári veldur ríkisstjórnin drætti og kemur jafnvel í veg fyrir fjárfestingar í atvinnulífi landsins. Meðan þúsundir Íslendinga eru án atvinnu og bíða tækifæra til að fá vinnu og sjá sér og sínum farborða er haldið fast við þá efnahagsáætlun sem stofnað var til í fyrrahaust með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um jöfnuð í frumútgjöldum ríkissjóðs á árinu 2011 og heildarjöfnuð á árinu 2013. Þessum markmiðum á að ná með eitraðri blöndu nýrra skatta auk hækkunar þeirra sem fyrir voru svo og niðurskurði ríkisútgjalda.

Vissulega er afar mikilvægt að vinna bæði hratt og örugglega í því að ná tökum á skuldavanda ríkisins og vinna að því að lækka gríðarlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs. En öllu má ofgera og þær áætlanir sem fram koma í frumvarpinu, sérstaklega að því er varðar tekjuáætlun þess, eru svo óljósar og lítt rökstuddar að sá grunnur frumvarpsins sem allt annað hvílir á er í besta falli óraunhæfur, svo ekki sé meira sagt.

Ég geld varhuga við þeim áformum að halda við þá efnahagsáætlun sem gerð var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi. Ekki síst í ljósi þess að sjóðurinn hefur ekki unnið eftir þeirri áætlun svo neinu nemur heldur þjónað allt öðrum hagsmunum en þeim sem honum var ætlað að gera. Áætlunartíminn er því sem næst hálfnaður en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur einungis tekið eitt lítið skref af mörgum sem honum voru ætluð í endurreisninni.

Við því er að búast að gangi áform ríkisstjórnarinnar um skattlagningu eftir muni vandi ríkissjóðs aukast enn frekar frá því sem nú er. Öllum má ljóst vera að á móti þeim samdrætti sem efnahagsforsendur frumvarpsins bera með sér þarf að örva hagkerfið svo sem frekast er unnt. Skattahækkanir og andóf gegn erlendri fjárfestingu eru ekki besta meðalið í þeim efnum og því síður áform um algera uppstokkun sjávarútvegsins líkt og boðað er að hefjist næsta haust með fyrningu aflaheimilda þann 1. september 2010.

Í ljósi allra aðstæðna í íslensku atvinnulífi er skoðun mín afdráttarlaust sú að þær óútfærðu áætlanir um aukningu skatttekna að upphæð 61 milljarður kr. verði að skoða sem ofurbjartsýni og algerlega óraunhæft er að þær gangi allar upp. Á sama tíma og þessar áætlanir um tekjuauka af nýjum sköttum berast landslýð koma sífellt nýjar fréttir af yfirtöku ríkisins á fyrirtækjum og ömurlegar fréttir af fjöldauppsögnum hvína í hlustum fólks. Raunar kemur fram í frumvarpinu að ekki sé gert ráð fyrir því að efnahagsbati muni leggja ríkissjóði lið við tekjuöflunina. Því er varasamt að ætla að skattahækkanirnar skapi jafnmiklar tekjur og ætlast er til þar sem mjög líklega munu skattstofnar dragast saman í kjölfar þeirra.

Í ljósi þess vanda sem við er að glíma og þeirrar brýnu þarfar á samstilltu átaki á vettvangi stjórnmálanna, er það umhugsunarvert að ríkisstjórnin skuli ekki hafa tekið með jákvæðum hætti undir efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins frá í vor þar sem raktar voru leiðir til að ná jafnvægi á ríkisfjármálunum. Í meginatriðum fólust þær í hagræðingu og niðurskurði ríkisútgjalda, breikkun skattstofna og kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrisgreiðslna sem skilað gætu ríkissjóði um 35 milljörðum kr. án þess að leggja þyngri byrðar á herðar launafólks og eftirlaunaþega.

Á næstu dögum mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja fram að nýju ítarlegar tillögur í efnahagsmálum sem að hluta til verða byggðar á vinnu þingflokksins frá því í vor. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnin muni taka þeim með jákvæðum og opnum huga og vil hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að rýna vel þessar tillögur við þá endurskoðun fjárlagafrumvarpsins sem óhjákvæmilega er fram undan

Við gjaldahlið frumvarpsins er sömuleiðis rétt að hafa nokkurn fyrirvara. Ríkisútgjöld hafa vaxið um tugi prósentna á síðustu tíu árum. Í fljótu bragði sýnist mér þó að meira aðhald hafi verið sýnt í ríkisútgjöldum við vinnu fjárlaga fyrir árið 2009 en þær tillögur um aðhald í ríkisrekstri sem þetta frumvarp ber með sér. Hvað veldur er ekki gott að segja en tæpast er um að kenna að ekki hafi gefist tími til að vinna að frekari hagræðingu því að hafa ber í huga að þetta verkefni lá fyrir þegar þann 1. febrúar þegar minnihlutastjórnin tók til starfa.

Ljóst er að aldrei verður hjá því komist að hagræða og spara í rekstri hins opinbera við núverandi aðstæður. Það verður að gera á þann hátt að mikilvæg þjónusta sé ekki skert meira en brýna nauðsyn ber til. Jafnframt er mikilvægt að ekki komi til flatur niðurskurður og að hagræðing verði unnin í nánu samstarfi við þá sem best til þekkja, starfsmenn og stjórnendur hlutaðeigandi málaflokks. Því ber að fagna að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því verklagi og vonandi verður því fylgt fast eftir þó að viðbrögð síðustu daga frá hinum ýmsu ríkisstofnunum gefi ekki tilefni til bjartsýni í þeim efnum.

Lækkun ríkisútgjalda má skipta í þrjá flokka: Rekstrargjöld á að skera niður um 13,9 milljarða kr., tilfærslur eru áætlaðar lækka um 15 milljarða kr. og viðhald og stofnkostnaður um 13,9 milljarða kr. Alls eru þetta um 43 milljarðar kr. á rekstrargrunni.

Ég vil þó fyrst víkja nokkrum orðum að þeim atriðum sem ekki koma fram í frumvarpinu sjálfu en full ástæða er til að fjárlaganefnd gaumgæfi ítarlega þegar hún fær plaggið til meðferðar. Þar er fyrst til að taka þætti sem varða vaxtagjöld ríkissjóðs. Vaxtagjöld af Icesave-skuldbindingunum svokölluðu vantar inn í fjárlagafrumvarpið og þar er um að ræða 40 milljarða kr. reikning á hverju ári. Verðbætur af skuldabréfi Seðlabankans vantar sömuleiðis inn í fjárlagafrumvarpið og þar er um að ræða 8–9 milljarða kr. á ársgrunni.

Ekki koma fram fullnægjandi skýringar í greinargerð frumvarpsins á því hvers vegna þessar skuldbindingar eru ekki taldar með rekstrargjöldum ríkissjóðs. Samkvæmt fjármálaákvæðum stjórnarskrár og lögum um ríkisbókhald er skylt að fá heimild á fjárlögum fyrir fram fyrir öllum útgjöldum ríkisins og öllum öðrum fjárskuldbindingum. Þetta þýðir að gjaldfæra verður á fjárlögum og í ríkisbókhaldi allar skuldbindingar og skuldir þegar ákvarðanir um slíkt eru teknar. Þess vegna er skylt að setja allar fyrirséðar fjárskuldbindingar í fjárlög næsta árs. Til viðbótar skuldbindingum vegna Icesave mætti nefna hugmyndir sem unnið er að varðandi áform um aðkomu fjárfesta að framkvæmdum: Að hvaða marki verða t.d. framkvæmdir fjármagnaðar utan fjárlaga og hversu lengi? Þjónustugjöld, t.d. vegtollar, munu tæplega standa undir fjármögnun allra þeirra verkefna sem nefnd hafa verið.

Til viðbótar samgönguframkvæmdum má svo nefna áform um aðkomu fjárfesta að byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss. Loks vil ég nefna margumrædd útgjöld vegna framkvæmda við tónlistar- og ráðstefnuhús, en þar hafa bankar nú þegar veitt framkvæmdalán út á væntanleg framlög á fjárlögum næstu ára.

Ef fjárlagafrumvarp og bókhald ríkisins á að vera samkvæmt fjárlagaákvæðum stjórnarskrárinnar, lögum um ríkisbókhald og almennum venjum í rekstri og á að standast það sem endurskoðendur kalla almennt „góðar reikningsskilavenjur“, vantar þessi viðfangsefni í frumvarpið eins og það lítur út núna.

Þó svo stjórnarsáttmálar ríkisstjórna verði alltaf eins konar óskalistar, byggðir á kosningaloforðum viðkomandi stjórnmálaflokka, er óhjákvæmilegt að gera nokkurn samanburð á þeim fyrirheitum sem núverandi stjórnarflokkar gáfu kjósendum í vor og efndum þeirra í því frumvarpi sem þeir bera hér fram. Ég ætla einungis að nefna tvö dæmi hér til skýringar:

Sú ríkisstjórn sem tók við þann 1. febrúar sl. gaf það út að hún væri norræn velferðarstjórn. Því vakti það allnokkra athygli í vor við afgreiðslu frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum að fyrstu hóparnir sem fengu strax að finna fyrir aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar voru elli- og örorkulífeyrisþegar. Framhald er á slíku í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og má lesa vel um útfærslu þess bls. 207 í greinargerðinni með frumvarpinu en þar kemur fram að þessar bætur munu enn lækka í almannatryggingakerfinu. Til rökstuðnings þeirri aðgerð er hins vegar bent á að grunnbætur trygginganna, ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbætur, hafa hækkað gríðarlega á síðustu árum. Niðurskurður nú er réttlættur með þessum hækkunum.

Í annan stað er boðuð uppstokkun á opinberri stjórnsýslu og samdrætti í framkvæmdum til samgöngumála. Þessi áform hafa vakið ugg í brjóstum fjölda fólks í mörgum sveitarfélögum vítt um land og fara viðbrögð ekki eftir neinum fyrir fram mörkuðum pólitískum línum. Sem dæmi má nefna að samflokksmenn hæstv. fjármálaráðherra í Norðvesturkjördæmi sáu ástæðu til þess að senda frá sér ályktun í fyrrakvöld þar sem þessum áformum öllum er lýst sem „sóknaráætlun gegn landsbyggðinni“. Þau viðbrögð sem fjárlaganefnd fékk í viðtölum sínum í fyrri viku frá sveitarstjórnum víða um land sem komu til fundar við fjárlaganefnd gefa fullt tilefni til að þessi áform verði gaumgæfð mjög ítarlega.

Virðulegi forseti. Meðal þess sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu eru, eins og áður sagði, umtalsverðar hækkanir á beinum sköttum einstaklinga og heimila, þ.e. tekju- og fjármagnstekjuskatti, og nýir auðlinda-, orku- og umhverfisskattar sem leggjast ekki eingöngu á stóriðju heldur á öll fyrirtæki og heimili í landinu, m.a. í formi hærra orkuverðs, stórfelldri hækkun á neyslusköttum og vörugjöldum sem fara beint inn í verðlagið og hækka þar með greiðslubyrði af verðtryggðum lánum. Og þá spyr maður sjálfan sig: Til hvers er unnið þegar reynt er um leið að lækka greiðslubyrði hins almenna íbúðareiganda í landinu? Það er ljóst að breikka þarf tekjugrunn hins opinbera og ekki getur talist raunhæft að brúa fjárlagagatið eingöngu með aðhaldi í ríkisrekstri, sér í lagi til skemmri tíma. Engu að síður er forkastanlegt hvernig stjórnvöld hyggjast varpa stærstum hluta vandans á löskuð heimili og fyrirtæki í landinu.

Nú þegar hefur átt sér stað veruleg aðlögun hjá heimilum og fyrirtækjum sem sést best á verulegum samdrætti í einkaneyslu, hruni í fjárfestingu einkaaðila, auknum gjaldþrotum fyrirtækja og lækkandi launum á almennum vinnumarkaði.

Skattpíning fyrirtækja og heimila, til að verja útgjöld í opinbera geiranum eru í besta falli skammgóður vermir.