138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt að það eru ákveðin þolmörk sem heimilin hafa. Einmitt þess vegna erum við að leita nýrra leiða í skattlagningu til að forða heimilunum frá 16 milljarða viðbótarálögum en það sætir gríðarlega harðri gagnrýni af hálfu flokks hv. þingmanns, þannig að málflutningurinn er nokkuð misvísandi að þessu leyti.

Ég held að það sem skiptir líka máli um skattlagningu á einstaklinga í landinu sé að við aukum jafnræði í þeirri skattlagningu, m.a. eftir hvaða leiðum menn hafa tekjur sínar, hvort menn eru að taka þær í gegnum einkahlutafélög eða arð af fjármagni eða launatekjur, að við bætum eftirlitið í skattinum og að við aukum jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Vegna þess að það er auðvitað ein af meinsemdunum í aðdraganda hrunsins að hér jókst því miður ójöfnuður mikið m.a. með aðgerðum í skattkerfinu.

Hvað stöðugleikasáttmálann varðar þá skiptir hann auðvitað gríðarlega miklu máli. Það sem helst ógnar honum er það að við höfum ekki enn náð vaxtastiginu niður. Við vitum það báðir, ég og hv. þingmaður, til hversu mikillar óþurftar það er í íslensku samfélagi og hversu mikilvægt það er að við náum því niður. Einmitt þess vegna er gríðarlega mikilvægt það fjárlagafrumvarp sem hér er fram komið og þær erfiðu ákvarðanir sem þar eru teknar um niðurskurð og líka um skattheimtu, vegna þess að með þeim ákvörðunum er verið að sýna það nauðsynlega aðhald sem þarf að vera í ríkisfjármálum til að skapa skilyrði til vaxtalækkunar.

Ég veit að hv. þingmaður þekkir mikilvægi þess fyrir atvinnulífið í landinu, og ég held raunar að við eigum fyrst og fremst að treysta því sjálfu fyrir því að byggja upp ný atvinnutækifæri fremur en standa hér í ræðustól á Alþingi og kalla að öll uppbygging eigi að vera í stóriðju. Ég held að við eigum fyrst og fremst að treysta atvinnulífinu sjálfu, því að þar á vettvangi séu menn færastir um að velja fjárfestingar sem eru arðbærar og (Forseti hringir.) til farsældar fyrir okkur til framtíðar.