139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég gæti sagt með mikilli vissu og festu: Skattstefna ríkisstjórnarinnar er vond, hún er mjög vond. Ég gæti líka sagt: Hún er algjört glapræði, hún er glapræði fyrir fólk. Og ég gæti líka sagt: Hún er algert glapræði fyrir fjölskyldurnar og hún er algjört glapræði fyrir fyrirtækin í landinu sem hún er.

Ég var á fundi áðan úti í Iðnó þar sem Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, sagði m.a. að skattstefna ríkisstjórnarinnar lamaði heimilin og lamaði fyrirtækin. Ef fram heldur sem horfir í atvinnumálum og skuldavanda heimilanna verða vinstri flokkarnir hér á þingi holdgervingar lífskjarastöðnunar. En ég tel að það sé ekki tími fyrir svona belging. Ég tel að það sé ekki tími núna fyrir svona skylmingar á Alþingi. Forustumenn flokkanna á Alþingi verða ekki bara að tala saman, heldur verða þeir að fara saman í þau gríðarlega miklu verkefni sem fram undan eru. Með því að reisa heimilin við sem fyrst, með því að ýta atvinnulífinu af stað af krafti sem hefur tilheyrandi jákvæðar afleiðingar m.a. fyrir skatttekjur ríkissjóðs.

Hið margfræga verkstjórnarhlutverk á Alþingi en líka ekki síður meðal stjórnmálaflokkanna liggur hjá forsætisráðherra. Það er forsætisráðherra sem á að leiða ólík öfl saman svo veröldin verði betri fyrir íslenskar fjölskyldur og íslenska þjóð. Ef forsætisráðherra gerir það hins vegar ekki verða aðrir að taka að sér það hlutverk. Það vita allir sem hér eru og eru eldri en tvævetur. Þess vegna vonast ég til að við þingmenn á Alþingi getum sýnt hversu megnugt þetta elsta löggjafarþing í heimi er með því að fara í það verkefni sem bíður okkar, þ.e. að vinna saman þannig að við getum endurreist samfélagið.