139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:26]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ákveðinn doði yfir íslensku atvinnulífi vegna óvissu um framtíðina. Fyrirtæki ráðast ekki í fjárfestingar, kaupa húsnæði eða fara í nýráðningar á starfsfólki. Hvaða hlutverki getur Alþingi eða ríkisvaldið gegnt í þessari stöðu?

Mig langar að gera að umtalsefni hér og nú hvort við getum í gegnum skattstefnu okkar hjálpað atvinnulífinu af stað á nýjan leik og beitt til þess skattalegum hvötum. Fjárlög ríkisins í dag sýna vel að rýmið fyrir kostnaðarsamar aðgerðir er ekki mikið en hins vegar tel ég að við getum sett í gang hvata sem nýtast fyrirtækjunum í dag en leiðir ekki til kostnaðar fyrir ríkið fyrr en þá síðar. Þannig getum við sett af stað hvata sem ýta undir fjárfestingar, koma fjármunum út úr bankakerfinu og til vinnu í atvinnulífinu þannig að fyrirtækin geta gert ráð fyrir skattalegu hagræði í viðskiptaáætlunum sínum. En þetta hagræði, þessir hvatar leiða ekki til kostnaðar fyrir ríkið fyrr en síðar.

Við þingmenn afgreiddum á síðasta ári frumvarp sem ýtir undir fjárfestingar í rannsóknum og þróun og til að ýta undir fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Ég tel að við getum gengið lengra og vil beina því til þingheims að við sameinumst núna um að hugsa hvernig við getum beitt skattalegum verkfærum til að hjálpa atvinnulífinu af stað á nýjan leik. Væri t.d. hægt að opna fyrir skattafslátt árið 2011 eða 2012 ef fyrirtæki ráðast í nýráðningar á þessu ári? Einn aðili út af atvinnuleysisskrá sparar ríkinu um 150 þús. kr. á mánuði og sú upphæð gefur ýmislegt ef ekki bara mjög gott rými til þess að gefa afslátt af launatengdum gjöldum vegna nýráðningar t.d. í gegnum tryggingagjald. Það mætti ganga lengra og ímynda sér að fyrirtæki geti ráðist í annars konar fjárfestingar og fái til þess skattalegt hagræði.

Lykilatriðið er þetta: Við eigum að nýta skattstefnuna til að hjálpa atvinnulífinu í gang á nýjan leik. Ég óska eftir samstarfi þingmanna úr öllum flokkum um það hvernig hægt er að framkvæma hugmyndir sem þessar. Það getum við gert á vettvangi þingnefnda því að hagsmunamál okkar allra er að nýta skattstefnuna til að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik.