140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:21]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þarna er ég alveg sammála hæstv. utanríkisráðherra, þetta er skýrt dæmi. Afstaða eða túlkun forseta Íslands hér á þingsetningardag á ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar vakti mig til umhugsunar því að þetta voru atriði sem ég hafði aldrei velt upp hvort gætu verið rétt á meðan ég las plaggið. Síðan komu mismunandi álit ýmissa stjórnlagaráðsmanna á túlkun forsetans. Þetta er einmitt það sem stjórnlaganefndin þarf að skoða rækilega og gera tillögur um úrbætur á enda skipuð valinkunnu fólki.

Ég þakka fyrir þann stuðning sem ég hef fengið við þessa tillögu úr flestöllum flokkum. Það hefur verið, og mér heyrist það líka á hæstv. utanríkisráðherra, víðtækur samhljómur með Samfylkingunni og þessari tillögu. Það eru stuðningsmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði meðflytjendur á tillögunni og ég hef rætt við fleiri þingmenn úr þeim flokki og þeir hafa verið mjög jákvæðir í garð þessa máls. Ég hef einnig rætt við þingmenn úr Framsóknarflokknum og þó að þeir séu ekki meðflutningsmenn hafa þeir lýst mjög jákvæðri hugsun í garð þessarar tillögu þannig að mér sýnist sem við getum vonandi komið þessari þingsályktunartillögu af stað og því ferli sem eftir er til þess að koma á afgreiðslu á frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Ég vona að það verði reisn yfir meðferð þingsins á því.

Eitt sem ég vildi benda á að lokum er að vonandi fara fjölmiðlar að taka við sér um málið og þingmenn líka. Hreyfingin var með opinn borgarafund fyrir um þremur vikum í Iðnó um ferlið á þessu máli. Það var nærri því fullt hús en þar voru engir þingmenn nema Hreyfingarinnar og enginn frá fjölmiðlum nema einn ljósmyndari frá Morgunblaðinu. Þetta birtist ekki í fréttum fjölmiðla þá viku en hins vegar voru í sömu viku um það bil 30 fréttir af megrun formanns Framsóknarflokksins. Vonandi verður tölulegur viðsnúningur á þessu (Forseti hringir.) í framtíðinni.