140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem er mjög eðlileg í ljósi aðstæðna og umræðna. Hæstv. ráðherra bregst illa við og segir að hann sé ásakaður um að gæta hagsmuna fjármálafyrirtækjanna. Í hinu orðinu segir hann: Röksemd mín fyrir því að ég gæti hagsmuna fjármálafyrirtækjanna er að ég hef svo ofsalega miklar áhyggjur af því og vil alls ekki undir neinum kringumstæðum að bótaskylda falli á ríkið vegna lagasetningar.

Í mínum huga er það alveg ljóst að verið er að girða fyrir það og reyna að sjá til þess að ekki komi ekki nein bótaskylda á ríkissjóð, með öðrum orðum að verið er að gæta hagsmuna fjármálafyrirtækjanna. Síðan á þá fólk bara að sækja rétt sinn ef svo ber undir.

Það sem mér finnst ekki stemma í þessu er mjög margt. Eitt er það að ef hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafa svo miklar áhyggjur af bótaskyldunni, af hverju var málið þá unnið með þessum hætti? Ef maður hefur virkilega áhyggjur af því að maður vandi sig ekki getur maður lent í vandræðum. Af hverju vandar maður sig þá ekki? Það er náttúrlega númer eitt.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir segir að inngrip löggjafans og ríkisstjórnarinnar hafi bara flækt málið. Ég vek athygli á því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á og ég hef heyrt, að það séu dæmi þess að lántakendur geti ekki fengið útreikning. Hvernig má það vera? Það segir mér að málið þarf skoðunar við, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.