141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans og sérstaklega jákvæð og hlý orð í garð okkar sem höfum unnið að Fjölmenningarsetrinu, sem erum fjölmörg. Alþingi samþykkti reyndar þessa þingsályktunartillögu samhljóða á sínum tíma.

Aðeins út af kvótaflóttamönnunum sem hæstv. ráðherra nefndi í lok máls síns. Hæstv. ráðherra greindi frá því að uppi væru hugmyndir um að hingað kæmu mögulega flóttamenn frá Sýrlandi. Ef ég veit rétt hafa ekki komið flóttamenn með þessum hætti til landsins frá því að þeir komu til Akraness á sínum tíma. Er það ekki rétt? (Gripið fram í.) Ef það er ekki rétt þá verður það leiðrétt. Mér fannst hæstv. ráðherra aðeins ýja að því að það væri vilji hæstv. ríkisstjórnar, eða að minnsta kosti tveggja ráðherra hennar, að taka á móti flóttamönnum með líkum hætti og gert var fyrir fáeinum árum, ætli það hafi ekki verið 2009. Nú vildi ég spyrja hæstv. ráðherra nánar út í það hvar þessi mál eru stödd, hvaða áform það eru. Hafa þessar formlegu óskir komið fram? Hafa íslensk stjórnvöld mótað sér einhverja stefnu almennt talað um móttöku slíkra flóttamanna?