142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:57]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fullri vinsemd segja við hæstv. forsætisráðherra, því að við erum að hefja nýtt kjörtímabil, að það er ekki til fyrirmyndar sá plagsiður hans að hefja öll andsvör við mig með því að saka menn um bull og þvætting o.s.frv. Ég ætla bara að segja þetta í fullri vinsemd af því að mér finnst að hann eigi að vera maður meiri sæva og sanda en þetta. Hann á alveg að geta rætt efnislega við mig og komið með efnislegar athugasemdir um það sem ég segi án þess að vera stöðugt með svona persónuleg hnjóðsyrði. Ég forðast þau í hans garð og mun halda því áfram.

Eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan þá hef ég margoft sagt að við munum ekki standa gegn því að framsóknarmenn komi málum sínum fram á þessu sumarþingi og standi við loforð sín. Það hef ég margsagt og við það stend ég og við samfylkingarmenn. Ég stend ekki gegn neinu þó að ég standi hér og reifi ágalla á því sem hér er lagt fram.

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra verður að átta sig á því að þegar ég segi að við munum ekki standa gegn því að framsóknarmenn framfylgi og komi því fram sem þeir hafa lofað þá er þetta ekki það sem þeir hafa lofað. Þetta er bara ekki það sem þeir hafa lofað og það er ekkert óeðlilegt við það að við bendum á (Forseti hringir.) í umræðum í þinginu að það sé ekki verið að efna það sem var lofað.