143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

efnahagsmál.

[13:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Svo að ég byrji á síðustu spurningunni þá finnst mér það raunar ekki koma til greina, við þær aðstæður sem við erum í, að skila fjárlögum enn eina ferðina með halla. Það segi ég einfaldlega vegna þess að vaxtakostnaður ríkisins er þegar orðinn slíkur að það er farið að bitna á grunnstoðunum. Þeirri þróun þarf að snúa við. Ég er sammála því sem hv. þingmaður spurði um, að ekki verði lengra gengið í að skera niður í grunnþjónustunni, en til að við getum staðið vörð um hana til framtíðar og bætt þar í þarf að ná tökum á skuldavandanum og vaxtakostnaði ríkissjóðs. Það verður ekki gert nema með hallalausum fjárlögum.

Hvað varðar fjárfestingarstefnu fyrrverandi ríkisstjórnar þá voru gallarnir við hana einkum tveir. Í fyrsta lagi hafði hún ekki verið fjármögnuð, ekki hafði verið sýnt fram á fjármagn til framkvæmdanna. Uppi voru hugmyndir um að nýta arð úr bönkum eða jafnvel arð af sölu banka í slíkt en þá gleymdist að það fjármagn sem ríkið setti inn í bankana var tekið að láni og þurfti að endurgreiða. Hitt var að verkefnin voru ekki öll líkleg til að skila verulegum arði.