143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

framlagning lyklafrumvarps.

[13:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Núna um helgina eða undanfarna daga hafa borist fréttir af því að unnið sé að samningu nýs lyklafrumvarps undir forustu hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra. Lyklafrumvarpið svokallaða var lagt fjórum sinnum fyrir Alþingi á síðasta kjörtímabili og ég minnist þess þegar ég var í allsherjarnefnd, á fyrri hluta þess kjörtímabils, að þá var mikið rætt hvort slík lagasetning gæti verið afturvirk.

Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi hv. þingmaður, sem var formaður allsherjarnefndar síðari hluta kjörtímabilsins hafði fullan áhuga og vilja til að afgreiða málið úr nefndinni og fékk fjölda gesta til viðræðu en spurningin um afturvirknina var alltaf yfirvofandi. Björgvin fékk Sigurð Líndal, prófessor emeritus, á fund nefndarinnar til að fjalla sérstaklega um þetta álitaefni. Sigurður kvað engan vafa á því að afturvirkt frumvarp stæðist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og þar með endaði í raun vinna Björgvins með frumvarpið í nefndinni.

Nú mun sem sagt verða unnið að gerð nýs lyklafrumvarps. Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um tvennt: Annars vegar hvort gert sé ráð fyrir að það verði afturvirkt þannig að þeir sem eru núna í kröggum geti skilað inn lyklum sínum og frumvarpið gagnist þeim. Hins vegar langar mig að spyrja um tímasetningar. Hvenær er gert ráð fyrir að frumvarpið varði lagt fyrir Alþingi? Það er alveg ljóst að fólk hefur tekið eftir þessu í fréttum og spyr hvort frumvarpið verði afgreitt fyrir jól.