144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

mygluskemmdir í húsnæði.

[15:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Boðið í vettvangsferðina í Álfheima 23, fyrir þá sem áhuga hafa, er núna á föstudaginn kl. 14. Við mætum þar, hún tekur vel á móti okkur, boðið stendur. Sér í lagi væri mjög gott að sjá þá sem voru á þingsályktunartillögunni, það eru þingmenn sem hafa kannski sett sig betur inn í efnið en aðrir, og ráðherra.

Varðandi annað mál sem tengist myglu, þá er fullt af fólki í Grindavík sem hefur þurft að flýja heimili sín sem Búmenn eiga. Nú virðast þeir ekki virða landslög sem Alþingi hefur sett um húsnæðissamvinnufélög. Þeir eiga að endurgreiða tryggingagjald með verðbótum til búseturéttarhafa eftir uppsögn, í sex mánuði eftir það.

Þeir virðast ekki uppfylla þetta og þá er spurningin: Getur velferðarráðherra ekki sett reglugerð til að auðvelda búseturéttarhöfum, sem allir eru neytendur, að fá rétti sínum fullnægt án þess að fara í dómsmál? Það er ekki raunhæf leið fyrir marga neytendur, sér í lagi eldra fólk sem hefur ekki orku og þrek í það (Forseti hringir.) að sækja rétt sinn. Það er alveg skýrt í lögunum að velferðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna og að brot gegn lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim (Forseti hringir.) varða sektum.