145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

fyrirhuguð sala Landsbankans.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Rétt eins og undanfarin ár, þar sem þessi heimild hefur verið í fjárlögum, hljóta menn að meta það hverju sinni hvort aðstæður hafi skapast til þess að endurheimta eitthvað af því fjármagni sem ríkið setti inn í þennan banka á sínum tíma sem neyðarúrræði.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni að fullt tilefni er til að hafa umræðu um það og velta því fyrir sér hvort þessi banki og helst auðvitað fleiri bankar geti ekki með betri hætti þjónustað íslenskan almenning. Auðvitað eru miklir gallar á íslensku fjármálakerfi sem birtast meðal annars í allt of háum vöxtum.

Ég ítreka aftur önnur atriði sem ég nefndi áðan: Við vildum gjarnan sjá að bankar eins og Landsbankinn væru leiðandi í að bæta þjónustu, draga úr hækkun þjónustugjalda og helst að lækka þau og gætu jafnvel orðið bakhjarlar sparisjóðakerfisins. Þetta eru vissulega hlutir sem, eins og hv. þingmaður bendir á, væri áhugavert að ræða hér.