149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

stefnumótun í heilbrigðismálum.

[15:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka vinsamlegar kveðjur til þingmannsins varðandi veruna hér á föstudaginn þegar verið var að ræða fjárlagafrumvarpið og get upplýst það að þingmaðurinn stóð hér í ströngu frá níu að morgni og nánast fram undir miðnætti, þannig að þingmaðurinn var vissulega í húsi allan daginn og hlustaði gaumgæfilega.

Ég þakka fyrir svarið. Varðandi það að ekki falli niður nein þjónusta þá er ég ekki viss um að þeir notendur þjónustu sem núna standa í ströngu í fjölmiðlum t.d. og birtast á hverjum degi, nema þetta séu allt falsfréttir, og þeir sem kalla eftir nauðsynlegri þjónustu séu sammála hæstv. heilbrigðisráðherra um að það sé alltaf tryggt að þjónustan sé veitt þegar hitt og þetta fellur niður.

Við þingmenn fengum auðvitað daglega póst frá Hugarafli vegna þjónustu við geðfatlaða. Það er búið að loka eða er verið að fara að loka göngudeild SÁÁ á Akureyri. Auðvitað getur þetta fólk (Forseti hringir.) bara komið sér eitthvert annað á landið til að sækja þessa þjónustu eða til útlanda en maður veltir þessu fyrir sér. (Forseti hringir.) En að auki kannski í lokin um þingsályktunartillöguna sem kemur í vor: (Forseti hringir.)Hefur heilbrigðisráðherra engar áhyggjur af því að hún komist ekki í gegnum (Forseti hringir.) ríkisstjórn og stjórnarflokka?