149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég átta mig alveg á því í hverju þingmaðurinn var að brýna okkur. Ég tek alveg undir það og ég fagna því að hv. þingmaður styðji málið. En aftur: Ég bara óttast það að ef við gefum þau skilaboð úr þessum ræðustól að þetta eigi bara að fara í þennan stýrihóp muni hugsanlega lítið sem ekkert gerast. Ég vil fá þetta mál í þinglega meðferð en að sjálfsögðu er ég ekki að mæla gegn því að stýrihópurinn skoði þetta, sérstaklega ef hann flýtir fyrir. Ég vek sérstaka athygli á því að í þingsályktunartillögunni erum við að álykta um að ríkisstjórnin, ekki einn ráðherra heldur ríkisstjórnin, undirbúi lögfestingu þessa samnings og þetta snertir mörg ráðuneyti, ég átta mig á því. Þetta heyrir ekki bara undir dómsmálaráðherra, ekki bara undir félagsmálaráðherra, þetta heyrir undir nokkur ráðuneyti, því að við erum ekki bara að álykta að þessi samningur verði lögfestur heldur að aðlögun annarra íslenskra laga að samningnum verði lokið.

Við sjáum að við erum strax farin að velta fyrir okkur hver eigi að þýða samninginn, utanríkisráðuneytið eða velferðarráðuneytið. Við erum að velta fyrir okkur hvaða nefnd eigi að fá þetta. Auðvitað er flækjustig þarna en ef vilji er fyrir hendi þurfa hlutirnir ekkert að vera mjög flóknir. En ég fagna sérstaklega stuðningi hv. þingmanns við efni málsins. Það er það sem máli skiptir.