150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

útflutningur á óunnum fiski.

[15:13]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta svar en ætla að vinda mér í aðra spurningu á öðrum þætti en það varðar klóþang. Klóþang er allt slegið fyrir ofan sjávarborð eftir stöðu sjávar. Nýting klóþangs fer fram á landi eftir sjávarstöðu. Þannig er það nú að veiðigjöld eru innheimt af nýtingu þangsins. Hér er verið að innheimta gjöld af stjórnarskrárvarinni eign sem mætti líkja við að greiða gjald af því að slá tún sín og hirða hey af þeim fyrir búfé sitt. Rétt er að benda á að verðmæti hvers tonns af klóþangi er svipað og gjaldið er af einu tonni af klóþanginu.

Menn eru ágætlega sáttir við að greiða gjald fyrir þara sem sannarlega er tekinn úr sjó, en það gildir annað um klóþangið. Hefur sjávarútvegsráðherra velt fyrir sér að breyta gjaldtöku um klóþang?