150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

bráðamóttaka Landspítalans.

[15:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns, þetta er alþjóðlegt vandamál og raunar er öll mönnun heilbrigðisþjónustunnar alþjóðlegur vandi. Það lýtur því miður ekki aðeins að mönnun í hjúkrun heldur líka mönnum sjúkraliða og þess vegna þurfum við að horfa á þetta frá þremur sjónarhornum, vil ég segja, kannski í fyrsta lagi því að fjölga þeim sem geta hafið nám og lokið því í þeim greinum, bæði hjúkrunarfræði- og sjúkraliðanámi, og til þess höfum við komið samstarfi við menntamálaráðuneytið á laggirnar sem á að skila tillögum til okkar í desember.

Þetta snýst einnig um að þau sem velja sér slíka menntun haldist í starfi. Ég er sammála hv. þingmanni um að það snýst ekki aðeins um hefðbundin kjör og kaup heldur ekki síður starfsaðstæður almennt og þar höfum við líka komið á samstarfi við fjármálaráðuneytið um að fara yfir þau mál sérstaklega. Við verðum að skoða þetta frá mjög breiðum sjónarhóli og við erum að því. Ég vænti þess að aðgerðirnar fari að skila einhverjum niðurstöðum og því fyrr, þeim mun betra. En aðalatriðið er að þetta er verkefni sem er með þeim efstu á mínu blaði og er einn meginkafli í nýsamþykktri heilbrigðisstefnu.